Málfundafélagið Endurreisn, sem stofnað var fyrir skömmu af Benedikt Jóhannessyni og fleirum, verður félag innan Viðreisnar. Benedikt sjálfur mun því áfram starfa innan vébanda Viðreisnar.
Frá þessu greinir hann sjálfur í færslu á Facebook í dag, en þar birtir hann tilkynningu um málið, þar sem fram kemur að stjórn Viðreisnar hafi á fimmtudag samþykkt tillögu sem felur meðal annars í sér að Endurreisn, sem berst fyrir heiðarleika, góðum stjórnarháttum, drenglyndi í stjórnmálum, frelsi, jafnrétti, stöðugu efnahagslífi og réttlæti, verði hluti af Viðreisn.
Prófkjör verði meginregla
Í færslu Benedikts segir að samkomulag hafi náðst um að „horft sé fram á veginn og allir félagar berjist innan Viðreisnar fyrir hugsjónum flokksins,“ en fyrr í sumar útilokaði Benedikt ekki að stofna annan stjórnmálaflokk í kjölfar þess að uppstillingarnefnd Viðreisnar bauð honum ekki forystusæti á Suðvesturhorninu, heldur neðsta sæti á lista.
Í kjölfarið sagði hann sig frá trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.
Í tilkynningunni sem Benedikt birtir í dag kemur fram að þær tillögur sem samkomulag hafi náðst um feli meðal annars í sér að prófkjör verði meginregla um val á efstu sætum lista flokksins.
Tillaga um slíkt muni koma til umræðu á komandi landsþingi Viðreisnar.
Þorgerður Katrín ánægð með samkomulagið
Þar er einnig vitnað til orða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar um málið. „Ég er ánægð með að samkomulag hafi náðst og þá sérstaklega með að Benedikt muni áfram starfa með flokknum enda öflugur liðsmaður. Við höfum sameiginlega sýn á það hvernig gera má íslenskt samfélag betra og ég hef fulla trú á því að saman eigum við eftir að gera flokkinn sterkari,“ er haft eftir formanninum í tilkynningunni sem Benedikt birtir.
Benedikt kveðst jafnframt ánægður og segir nú skipta máli „að snúa bökum saman og berjast saman fyrir nauðsynlegum grundvallarbreytingum á íslensku samfélagi“ þar sem áherslumál Viðreisnar hafi „aldrei verið eins mikilvæg fyrir þjóðina og einmitt núna.“
Það er með mikilli gleði að ég get tilkynnt eftirfarandi: Stjórn Viðreisnar samþykkti á fimmtudag tillögur sem snúa að...
Posted by Benedikt Jóhannesson on Monday, July 26, 2021
„Það þarf að setja á oddinn að reisa fjárhag ríkisins eftir Covid-faraldurinn og hallarekstur undanfarin ár, aflaheimildir verði seldar á markaði til takmarkaðs tíma þannig að hluti þeirra verði boðinn upp á hverju ári, kosningaréttur allra verði jafn, óháð búsetu, innflutningur matvæla verði frjáls og tollar og önnur gjöld á þau afnumdir. Gengi krónunnar verði tengt við evru með það að markmiði að hægt verði að taka upp evru þegar þar að kemur, ríki og sveitarfélög hætti að sinna verkefnum sem einkaaðilar geta sinnt og aðför að einkarekstri í heilbrigðiskerfinu verði hætt.
Hér eftir sem hingað til mun ég starfa af fullum heilindum að þessum markmiðum innan Viðreisnar,“ hefur Benedikt eftir sjálfum sér, í tilkynningunni um þessar sættir innan Viðreisnar.