Í bókinni Rauði baróninn – Saga umdeildasta knattpyrnudómara Íslandssögunnar fer Garðar Örn Hinriksson yfir feril sinn sem knattspyrnudómari, sem stóð yfir í um 30 ár. Safnað er fyrir útgáfu bókarinnar á Karolina Fund.
Sagan hefst á Stokkseyri árið 1985 þegar Garðar, þá á fjórtánda ári, er spurður að því hvort hann hafi áhuga á því að prófa að vera línuvörður í einum leik. Eftir það varð ekki aftur snúið. Hann steinféll fyrir starfinu. Þrettán árum síðar var Garðar orðinn dómari í efstu deild, eitthvað sem hann dreymdi um að verða en átti aldrei von á.
Örfáum árum síðar var hann svo orðinn alþjóðlegur knattspyrnudómari. Alls dæmdi Garðar 175 leiki í efstu deild karla og þrjá bikarúrslitaleiki – einn hjá stelpunum og tvo hjá strákunum. Einnig var hann valinn besti dómari landsins þrisvar sinnum.
Ferli hans lauk á sama stað og hann hófst, á knattspyrnuvellinum á Stokkseyri, árið 2016.
Hvernig varð hugmyndin að verkefninu til?
Hún vaknaði í raun á þeirri stundu er ég blés í flautuna í síðasta skiptið fyrir fimm árum síðan. Ég fór strax í það að safna saman upplýsingum sem hefur tekið ágætis tíma enda var ég knattspyrnudómari hátt í 30 ár. Það er frá mörgu að segja enda var margt sem gerðist innan sem utan vallar á þeim tíma og langaði mér til þess að segja mína sögu og gefa fólki smá innsýn inn í líf knattspyrnudómarans, sem getur tekið á stundum, en er oftast mjög skemmtilegt.
Hvað ertu að fjalla um í bókinni?
Ég skipti þessu upp í nokkra hluta svona eins og um fótboltaleik væri að ræða. Ég byrja á Upphitun þar sem ég fer aðeins í upphafið og segi aðeins frá mér og mínum. Síðan er það Fyrri Hálfleikur þar sem ég tek hvert ár fyrir sig sem ég dæmdi og týni til það helsta.
Í Seinni Hálfleik fer ég yfir ýmislegt, m.a. verstu mistökin, óheiðarlega blaðamenn, erfiða þjálfara og fleira. Eftir Leik fer ég í í það sem gerðist utan vallar, sem gat verið ansi skrautlegt.
Síðan enda ég á Leikskýrslunni, þar sem fólk fær að tjá sig um mig sem knattspyrnudómara og margt sem þar kemur í ljós sem mig grunaði aldrei.
Saknar þú flautunnar?
Nei, í rauninni ekki. Ég finn yfirleitt ekki fyrir löngun til að taka hana upp aftur nema þegar einhver góður og mikill hasar er í gangi í leikjum sem ég er að horfa á í sjónvarpinu. Það voru mínar uppáhalds stundir í mínum leikjum. Ég sakna þeirra stunda örlítið þó þær hafi ekki alltaf verið auðveldar.
Hægt er að taka þátt í söfnuninni hér.