Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að rúmlega tvöföldun hagnaðar Landsvirkjunar milli ára undirstriki að salan á eignarhlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í fyrirtækinu árið 2006 hafi verið „algjört hneyksli“. Borgin fékk ríflega 27 milljarða króna fyrir söluna árið 2006 og Akureyrarbær rúmlega þrjá milljarða. Greiðslurnar voru í formi lífeyrisskuldbindinga.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Ef Reykjavíkurborg ætti enn hlut sinn hefði hún fengið fyrir skatt 6-7 milljarða í arð fyrir síðasta ár og Akureyrarbær 750 milljónir króna. „Sala meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á 46 prósenta hluta Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun var algert hneyksli. Verðið var allt of lágt,“ segir Dagur í Fréttablaðinu í dag. „Borgin fékk innan við 30 milljarða í sinn hlut fyrir Landsvirkjun á sínum tíma sem er mörg hundruð milljarða virði.“
Samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar 2021 nam hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði tæpum 30 milljörðum króna og er lagt til að greiddir verði 15 milljarðar í arð vegna afkomu ársins. Dagur segir söluna „eitt versta dæmið og sannarlega það stærsta um fjármálaafglöp á sveitarstjórnarstigi á Íslandi“. Það sé skylda Sjálfstæðisflokksins að gera málið „almennilega upp“ og biðjast afsökunar.
Eini fulltrúinn í bæjarstjórn Akureyrarbæjar sem greiddi atkvæði gegn sölunni á sínum tíma, Oddur Helgi Halldórsson, oddviti L-listans, segir við Fréttablaðið að í ljósi þeirra tekna sem fyrirséðar voru vegna Kárahnjúkavirkjunar hefðu „viðvörunarbjöllur átt að hringja“.
Er eignarhlutur Akureyrarbæjar og Reykjavíkur var seldur var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri í Reykjavík og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta eru dýrustu mistök í stjórnun Akureyrarbæjar frá upphafi,“ hefur Fréttablaðið eftir Oddi Helga.
Á fundi borgarráðs í nóvember árið 2006 var hart tekist á um söluna. Samningur um kaup ríkisins á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun var lagður fram til samþykktar. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Oddný Sturludóttir og Dagur B. Eggertsson, lögðu til að samningurinn yrði tekinn upp en sú tillaga var felld með fjórum atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gegn þremur atkvæðum Vinstri grænna og Samfylkingar.
Í bókun Oddnýjar og Dags sagði að illa hefði verið haldið á hagsmunum Reykjavíkurborgar og borgarbúa í viðræðum við ríkið. Verðið sem fengist fyrir fyrirtækið væri fjarri því að vera ásættanlegt, greiðsluformið vont og fyrirvarar um einkavæðingu héldu ekki. Svo sagði: „Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar ítreka þá afstöðu að Reykjavíkurborg geti ekki til framtíðar verið eigandi að meginhluta helstu orkufyrirtækja landsins. Þess vegna var sala Landsvirkjunar sett í formlegt ferli á síðasta kjörtímabili.“ Þórólfur Árnason og Steinunn Valdís Óskarsdóttir voru borgarstjórar frá 2003 og fram á mitt ár 2006.
Þær viðræður hefðu hins vegar strandað vegna „óábyrgra yfirlýsinga“ um einkavæðingu fyrirtækisins og hins vegar vegna þess að ríki og borg hafi ekki náð saman um verð, sögðu borgarráðsfulltrúarnir Dagur og Oddný.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir, núverandi matvælaráðherra, lét bóka að hún tæki undir tillögu Samfylkingar þess efnis að samningar um söluna yrðu teknir upp. Sagði hún þá stjórnunarhætti sem endurspegluðust í samningunum ámælisverða. „Áréttaðar eru þær skoðanir Vinstri grænna að sala í því pólitíska umhverfi sem nú ríkir er ekki í þágu almannahagsmuna þar sem fyrirvarar um einkavæðingu halda ekki. Ríkisstjórn Íslands hefur um árabil gengið erinda markaðssjónarmiða fremur en samfélagsins alls og er full ástæða til að ætla að slík sjónarmið verði ofan á varðandi þróun orkugeirans. Vinstri græn munu áfram standa vörð um hagsmuni almennings í þessu máli sem öðrum hvort sem er á vettvangi sveitarfélaga eða ríkis,“ sagði Svandís í bókun sinni.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykkti svo sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun á fundi borgarstjórnar 21. nóvember 2006. Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra greiddu atkvæði gegn sölunni. „Með samþykkt borgarstjórnar í dag er stigið skrefi nær þeim markmiðum stjórnvalda, með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, að einkavæða Landsvirkjun,“ sagði í bókun fulltrúa VG.