„Það þarf að passa sig á því að horfa hlutlaust á verkefnið, draga fram staðreyndir en ekki tilfinningar þeirra sem vinna að verkefninu. Við erum líka að tala um að sameina sveitarfélögin en ekki sameina annað sveitarfélagið hinu, sem er mjög mikilvægt í umræðunni.“
Þetta segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, um þau tíðindi að óformlegar viðræður um sameiningu sé hafnar milli sveitarfélagsins og nágrannabyggðarinnar Tálknafjarðarhrepps.
„Aukinn íbúafjöldi er ákveðið tækifæri, en stærra sveitarfélag er sterkara, það yrði sterkari rödd frá sunnanverðum Vestfjörðum,“ svarar hún spurð um kosti sameiningar. „Það ætti að nást breiðari þjónusta við íbúa og sterkari innviðir. Samgönguúrbætur milli byggðakjarnanna mun skipta sköpun fyrir íbúa svæðisins. Enn fremur yrði lögð meiri áhersla á íbúalýðræði í sveitarfélögunum en hefur verið hingað til, með stofnun heimastjórna að fyrirmynd Múlaþings.“
Árið 1994 var kosið um sameiningu allra sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum, þ.e.a.s. Bíldudalshrepps, Tálknafjarðarhrepps, Patrekshrepps og Rauðasandshrepps. Í atkvæðagreiðslu felldu Tálknfirðingar tillöguna og úr varð að sameina öll sveitarfélögin sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni að undanskildum Tálknafjarðarhreppi, í nýtt sveitarfélag, Vesturbyggð.
Nokkrar þreifingar hafa verið um margra ára skeið um frekari sameiningar á Vestfjörðum, en á árinu 2021 fóru að skýrast einhverjar leiðir og m.a. var farið í könnun á hagkvæmni sameiningar Tálknafjarðar og Vesturbyggðar.
Í lok síðasta árs sendi Tálknafjarðarhreppur beiðni um óformlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaga til allra sveitarfélaganna á Vestfjörðum, að undanskildum Ísafjarðarbæ. Gerist þetta eftir að Tálknafjarðarhreppur hafnaði óformlegum sameiningaviðræðum við Vesturbyggð eingöngu þar sem vilji var til að kanna hug fleiri sveitarfélaga til sameiningar, útskýrir Þórdís.
„Vesturbyggð svaraði beiðni þeirra á þá leið að sveitarfélagið væri tilbúið til að ræða sameiningarvilja Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, hefði Tálknafjarðarhreppur áhuga á að taka upp óformlegar viðræður aðeins við Vesturbyggð,“ segir hún. Tálknafjarðarhreppur ákvað svo í upphafi árs að vísa tillögu um sameiningaviðræður sveitarfélaganna tveggja til ákvörðunar nýrrar sveitarstjórnar eftir kosningar. Ný sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkti svo samhljóða að taka upp óformlegar viðræður við bæjarstjórn Vesturbyggðar um sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Óformlegar viðræður um sameiningar hófust því í haust.
Mikið samstarf nú þegar
„Mjög mikið og gott samstarf hefur verið undanfarin á á milli Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, samstarf um starfsfólk, þjónustu og nefndir er þegar til staðar,“ segir Þórdís.
Í fyrra var gerð könnun á hagkvæmni sameiningar sveitarfélaganna, annars vegar á vegum Tálknafjarðarhrepps og hins vegar Vesturbyggðar, en í því ferli voru m.a. haldnir íbúafundir. „Niðurstöður könnunarinnar er að helstu baráttumálin eru bættar samgöngur og þar helst jarðgöng milli byggðakjarna, undir Mikladal sem er á milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar og undir Hálfdán sem er milli Tálknafjarðar og Bíldudals,“ segir Þórdís. „Með bættum samgöngum verður til sterkara sveitarfélag og auðveldara að ferðast innan sama atvinnusóknarsvæðis.“
Íbúar hafa lokaorðið
Þórdís segir að enn sem komið er hafi hugur íbúa aðeins verið kannaður óformlega á íbúafundunum í fyrra. En verði ákveðið að fara í formlegar sameiningaviðræður verður kosið um sameiningu sveitarfélaganna.
„Sveitarstjórnir beggja sveitarfélaganna þurfa að taka ákvörðun um það ef að óformlegar sameiningarviðræður verði að formlegum viðræðum,“ segir hún. Það gæti t.d. gerst í framhaldi af tillögu verkefnastjórnar um slíkt. „Verði viðræðurnar formlegar mun það alltaf enda með að íbúar kjósi um sameiningu.“