Fylgi Sjálfstæðisflokks dalar um 3,2 prósentustig milli mánaða og mælist nú 20,1 prósent samkvæmt nýjustu könnun Maskínu. Flokkurinn er nú að mælast 4,3 prósentustigum undir kjörfylgi sínu.
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé enn stærsti flokkur landsins samkvæmt mælingum þá er Framsóknarflokkurinn nú ekki langt undan með 17,8 prósent fylgi. Fylgi þess flokks eykst um þrjú prósentustig milli mánaða og er nú aðeins yfir því sem Framsókn fékk í kosningunum í haust.
Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra, bæta líka við sig á milli mánaða og mælast nú með 11,2 prósent fylgi, sem er samt sem áður 1,5 prósentustigum frá því sem kom upp úr kjörkössunum í síðustu kosningum. Flokkurinn mælist nú sá fimmti stærsti á þingi.
Þeir flokkar í stjórnarandstöðunni sem hafa bætt við sig mestu fylgi samkvæmt könnunum frá því í síðustu kosningum eru Píratar og Samfylkingin. Píratar mælast nú með 13,5 prósent fylgi sem er 4,9 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum 2021.
Samfylkingin mælist með 12,3 prósent fylgi sem er þremur prósentustigum meira en flokkurinn mældist með í desember og 2,4 prósentustigum meira en hann fékk í síðustu kosningum.
Viðreisn mælist með 9,2 prósent fylgi sem er 0,9 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í september.
Miðflokkurinn, sem beið afhroð í síðustu kosningum og tapaði helmingnum af fylgi sínu, heldur áfram að dala og mælist nú með 3,7 prósent fylgi. Það er sama fylgi og Sósíalistaflokkurinn mælist með, og myndi þýða að ósennilegt væri að flokkarnir tveir næðu inn manni ef kosið yrði í dag.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.548 talsins af öllu landinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 6. til 19. janúar 2022.