„Það er búið að reka ríkisstjórnina til baka með þær aðgerðir sem hún taldi áður nauðsynlegar, landamærin eru götótt og eftirlit með sóttkví er í skötulíki. Á sama tíma boðar ríkisstjórnin frekari opnun fyrsta maí,“ sagði Logi Einarsson í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag er hann beindi fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Logi sagði að áhrifaríkasta leiðin í baráttunni við faraldurinn væri sú að skylda fólk til að dvelja í sóttvarnahúsi við komuna til landsins, leið sem hefði verið reynd en dæmd ólögmæt. „Í kjölfar dómsins féll ríkisstjórnin frá þessum áformum á landamærum og virðist gæta mikillar sundrungar innan stjórnarinnar um aðgerðir þrátt fyrir yfirlýsingar hæstvirts forsætisráðherra um annað,“ bætti hann svo við.
„Fyrst reglugerðina skorti lagastoð er nauðsynlegt að styrkja lögin og spurningin er því sáraeinföld, hæstvirtur forsætisráðherra, hyggst ríkisstjórnin gera það eða til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa svo komið sé hægt að koma í veg fyrir að við fáum faraldurinn í fullan vöxt aftur og aftur?“ spurði Logi.
Núverandi kerfi „skilvirkt og gott“
Katrín áréttaði það að smitið sem rekja má nýjustu hópsýkingarnar til kom inn til landsins áður en reglugerð um sóttkvíarhótel tók gildi. „Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að þau smit sem við erum að sjá núna og má rekja til smits sem kom yfir landamærin, til aðila sem hélt ekki sóttkví, kom hingað til lands fyrir fyrsta apríl, bæði fyrir gildistöku reglugerðar um sóttkvíarhótel sem og fyrir þess regluverks sem tók við af þeirri reglugerð þegar hún var dæmd ólögmæt. Þannig að við verðum að hafa það í huga að það er kannski erfitt að draga of miklar ályktanir um núverandi ráðstafanir út frá þessu tiltekna smiti.“
Hún sagði núverandi fyrirkomulag vera skilvirkt og gott en að fólk hefði ekki fylgt því, það væri miður, og að hún skildi gremju þeirra sem hefðu fylgt reglum. Eftir að skyldudvöl á sóttkvíarhóteli var dæmd ólögmæt hefði verið leitað leiða til að grípa til ráðstafanna innan núverandi lagaramma.
Katrín sagði að ef það kæmi á daginn að núgildandi reglur væru ekki fullnægjandi þá væri ríkisstjórnin reiðubúin til að skoða breytingar á lögum til að hægt verði að tryggja það að svona atvik endurtaki sig ekki. „Það er auðvitað mikill skaði sem verður af einu svona broti og algjörlega óásættanlegt hversu miklum skaða slík brot geta valdið,“ sagði hún í lok svars síns.
Tilbúinn með frumvarp
Logi spurði í kjölfarið hversu langan tíma ríkisstjórnin hygðist taka sér til að meta hvort ráðast þyrfti í breytingar á lögum. Hann spurði einnig hvort hún hefði tryggt stuðning við slíka lagasetningu innan ríkisstjórnarinnar, „vegna þess að þó að hún segir sjálf í fjölmiðlum að það sé mikið samlyndi á því heimili þá veit ég ekki hvort maður á þá að sleppa því að taka mark á fjölmörgu stjórnarliðum sem segjast ekki munu styðja þetta.“
Hann sagði Samfylkinguna vera tilbúið með frumvarp sem skyldar fólk til að dvelja í sóttvarnahúsi. „En Samfylkingin er tilbúin til að taka ómakið af ríkisstjórninni og við erum tilbúin með frumvarp á sóttvarnalögum sem heimilar ráðherra að skylda fólki sem hingað kemur í dvöl í sóttvarnarhús. Það byggir á tillögum Þórólfs og ég spyr því: Er hæstvirtur forsætisráðherra tilbúinn til að styðja slíkt frumvarp ef það kemur fram strax og er hún tilbúin til að hlusta á áfram á sérfræðinga okkar?“
Lagabreytingar til skoðunar síðan dómur féll
Katrín sagði sóttvarnahús hafa verið notað töluvert af ferðamönnum sem hingað koma. Þó hefðu mögulegar lagabreytingar verið til skoðunar allt síðan dómur féll í málinu sem sneri að lögmæti sóttvarnahúss.
„En eðli málsins samkvæmt vildu leita leiða innan gildandi lagaramma fyrst. Þessar ákvarðanir, eins og allar aðrar í þessum faraldri, eru til stöðugrar endurskoðunar þannig að ætla ekki að segja til um það nákvæmlega hver hverjar lyktir málsins verða. En ég get fullvissað háttvirtan þingmann um það markmið ríkisstjórnarinnar að gera eins vel og við getum í því að kæfa niður þennan faraldur,“ sagði Katrín að lokum.