Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá rúm 26 prósent og mest fylgi allra flokka sem boðað hafa framboð til borgarstjórnar í Reykjavík, samkvæmt nýrri könnun frá Gallup sem fjallað var um í kvöldfréttum RÚV í kvöld.
Samfylkingin mælist með 21,2 prósent fylgi í sömu könnun og báðir þessir flokkar myndu því tapa um 5 prósentustigum frá því í borgarstjórnarkosningunum árið 2018.
Píratar, Framsókn og Vinstri græn bæta hins vegar við sig. Píratar mælast nú með hartnær 13 prósenta fylgi en fengu um 8 prósent árið 2018 og Framsókn, sem á í dag engan borgarfulltrúa eftir að hafa beðið afhroð í borginni árið 2018, mælist nú með um 10 prósenta fylgi. Vinstri græn, sem eiga einungis einn fulltrúa í borgarstjórn, nær tvöfalda fylgi sitt frá 2018 og mælast nú með tæp 9 prósent.
Miðflokkur þurrkast út – meirihlutinn í heild bætir við sig
Viðreisn stendur í stað samkvæmt könnuninni, með rösklega 8 prósenta fylgi og fylgi Sósíalistaflokks og Flokks fólksins er nálægt því sem það var kosningunum árið 2018. Miðflokkurinn mælist hinsvegar einungis með rúm 2 prósent, sem myndi ekki duga til að ná inn manni í borgarstjórn að nýju.
Allt í allt bæta flokkarnir fjórir sem í dag mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur við sig fylgi frá kosningunum árið 2018, samkvæmt könnun Gallup.
Samanlögð fylgisaukning Pírata og Vinstri grænna er þannig meiri en það tæplega 5 prósenta fylgistap Samfylkingar frá síðustu sveitarstjórnarkosningum sem birtist í könnuninni.
Maskína sýndi Samfylkingu stærsta og meira fylgistap Sjálfstæðisflokks
Könnun Gallup sem birt var í kvöld er önnur könnunin á fylgi flokka í Reykjavík sem birtist í aðdraganda komandi sveitarstjórnarkosninga. Í könnun Maskínu, sem birt var 11. febrúar, mældist Samfylkingin stærsti flokkurinn í borginni en Sjálfstæðisflokkurinn einungis með um 22 prósent fylgi.
Viðsnúningur hefur þannig orðið á stöðu tveggja stærstu flokkanna, samkvæmt þessari könnun Gallup, sem samkvæmt frétt RÚV var framkvæmd dagana 14. febrúar til 13. mars. Heildarúrtaksstærð var tæplega 2400 manns og tóku tæp 50 prósent þátt.