Samfylkingin mælist með 23,6 prósent fylgi í nýjustu könnun Gallup sem er einungis 0,2 prósentustigum undir fylgi Sjálfstæðisflokks. Sá munur er langt innan skekkjumarka. Samfylkingin hefur ekki mælst með svo mikið fylgi í tólf ár, eða frá því í lok desember 2010. Þá sat flokkurinn í ríkisstjórn með Vinstri grænum og Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, var forsætisráðherra.
Þetta er þriðja könnunin á skömmum tíma sem sýnir fylgi Samfylkingarinnar yfir 20 prósentustigum. Síðustu birtu kannanir Maskínu og Prósents, sem birtar voru í lok nýliðins árs, gerðu það sömuleiðis. Fylgi flokksins hefur farið hratt upp á við eftir að Kristrún Frostadóttir tilkynnti um formannsframboð í Samfylkingunni í ágúst, en hún var kjörin formaður flokksins í október. Alls mælist Samfylkingin nú með 13,7 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum í september 2021.
Framsókn ekki minni á kjörtímabilinu
Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnarflokkurinn sem mælist nálægt kjörfylgi, en 23,8 prósent segjast styðja hann. Það er 0,6 prósentustigum undir kjörfylgi og flokkurinn er áfram sem áður stærstur, þótt Samfylkingin andi hressilega niður hálsmálið á honum.
Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem tapað hefur næst mestu fylgi það sem af er kjörtímabili, en fylgi hans hefur farið úr 17,3 í 12,1 prósent. Það er minnsta fylgi sem flokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar hefur mælst með á yfirstandandi kjörtímabili.
Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir tapað 11,6 prósentustigum samkvæmt Gallup. Það þýðir að Samfylkingin hefur bætt við sig 2,1 prósentustigi meira af fylgi en flokkarnir þrír sem sitja að völdum hafa tapað.
Líkt og áður sagði hefur fylgi Samfylkingarinnar ekki mælst meira í tólf ár. Í þeirri könnun, sem birt var í desember 2010, mældust fjórir flokkar með fylgi hjá Gallup. Auk Samfylkingarinnar voru það núverandi stjórnarflokkar en þessi hópur flokkar er oft kallaður fjórflokkurinn.
Í dag er staðan allt önnur, en alls níu flokkar mælast með fylgi. Athygli vekur að Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn eru þeir meðlimir fjórflokksins sem mælast með fylgi á svipuðum slóðum nú og þeir voru með fyrir tólf árum. Sjálfstæðisflokkurinn mældist þá með tíu prósentustigum meira en nú og Vinstri græn með 10,8 prósentustigum meira.
Einungis þrír flokkar hafa bætt við sig
Tveir aðrir flokkar utan Samfylkingarinnar hafa bætt við sig fylgi á yfirstandandi kjörtímabili. Píratar mælast með 11,2 prósent og Sósíalistaflokkurinn með 4,6 prósent. Samkvæmt útreikningum RÚV, sem birti niðurstöðu Gallup í kvöldfréttum sínum, dugir það fylgi þó ekki til að Sósíalistar nái inn manni ef kosið yrði í dag.
Fylgi Viðreisnar mælist 6,9 prósent, eða 1,4 prósentustigi undir kjörfylgi, og Flokkur fólksins mælist með 6,2 prósent, sem er 2,6 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í september 2021. Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar yrði svo minnsti flokkurinn á þingi, en útreikningar RÚV sýna að þau 4,6 prósent sem myndu kjósa flokkinn gætu skilað einum kjördæmakjörnum þingmanni inn án þess þó að Miðflokkurinn næði yfir fimm prósent þröskuldinn sem þarf til að ná inn jöfnunarþingmanni.
Einn ólíklegur möguleiki á tveggja flokka stjórn
Ríkisstjórnin er fallin samkvæmt þessari könnun, og þingmannafjöldi hennar færi úr 37 í 30. Sjálfstæðisflokkurinn myndi samt sem áður bæta við sig einum, og fá 17 þingmenn, í ljósi þess að Miðflokkurinn næði ekki jöfnunarþingmanni en Framsókn myndi tapa fjórum og fá níu. Vinstri græn myndu einungis fá fjóra þingmenn ef kosið yrði í dag og þingflokkurinn myndi helmingast.
Hægt væri að mynda þriggja flokka stjórn Samfylkingar, Pírata og Flokks fólksins sem myndi hafa minnsta mögulega meirihluta. Tveir fyrrnefndu flokkarnir gætu líka sleppt Flokki fólksins og tekið Framsókn með sér, sem myndi auka meirihlutann um einn. Fjölmargir möguleikar eru svo á myndum fjögurra og jafnvel fimm flokka stjórnum.