Samfylkingin mælist með 9,3 prósent fylgi í nýjustu skoðanakönnun MMR sem birt var í dag. Það er minnsta fylgi sem hún hefur nokkru sinni mælst með. Píratar bæta lítillega við sig og mælast með 33,2 prósent fylgi. Flokkurinn hefur nú mælst með yfir 30 prósent fylgi í fimm könnunum MMR í röð. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 0,5 prósentustigum og mælist með 23,8 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn bætir 0,6 prósentustigum við sig og mælist nú með 10,6 prosent fylgi. Vinstri grænir myndu fá tólf prósent atkvæða ef kosið yrði í dag en Björt framtíð heldur áfram að hrapa, og mælist með 5,6 prósent fylgi.
Könnunin var framkvæmd daganna 24. til 30. júní 2015.
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar á ný eftir að hafa tekið lítinn kipp upp á við í síðustu könnun MMR, sem var birt 24. júní. Nú styðja einungis 30,4 prósent aðspurðra ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Í síðustu könnun mældist stuðningur við hana 31,9 prósent. Til samanburðar mældist stuðningur við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sat við völd á árunum 2009 til 2013, 31,5 prósent þegar hún lét af störfum. Þegar sú ríkisstjórn hafði setið í hálft kjörtímabil mældist stuðningur við hana 31,5 prósent í könnun MMR, eða lítið eitt meiri en stuðningur við núverandi ríkisstjórn er á sama tíma.
Samfylkingin í verulegum vandræðum
Fylgi Samfylkingarinnar hefur hríðfallið undanfarin misseri og flokkurinn virðist vera í miklum vandræðum við að höfða til kjósenda. Flokkurinn fékk 12,9 prósent í síðustu kosningum, sem þótti afleit niðurstaða, og tapaði meira fylgi á milli kosninga en nokkur flokkur í sögu landsins hefur gert. Fyrir tæpu ári síðan í ágúst 2014, virtist Samfylkingin vera að ná sér á strik og fylgið mældist í kringum 20,3 prósent. Síðan þá hefur það verið á hraðri niðurleið og fór í fyrsta sinn undir tíu prósent í könnunum MMR í þeirri sem var birt í dag, en fylgi Samfylkingar mælist nú 9,3 prósent. Miðað við það er Samfylkingin næst minnsti flokkur landsins.
Líkt og undanfarna mánuði þá eru hinir flokkarnir sem taldir eru til kerfisflokka íslenskra stjórnmála einnig í miklum vandræðum við að ná til kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn, sem er sögulega mælist nánast alltaf stærsti flokkur landsins, er langt frá því að mælast í þeim hæðum sem hann er vanur. Fylgi flokksins mælist nú 23,8 prósent,sem er töluvert undir kjörfylgi flokksins í síðustu kosningum, þegar hann hlaut næstverstu útkomu sína í sögunni.
Sömu sögu er að segja af Framsóknarflokknum, sem leiðir sitjandi ríkisstjórn. Flokkurinn fékk 24,4 prósent í síðustu kosningum en mælist nú 10,6 prósent fylgi. Fylgi hvorugs stjórnarflokksins hefur aukist mikið eftir að þeir kynntu viðamikla áætlun sína um losun hafta í byrjun júnímánaðar.
Ekki mjög björt framtíð hjá Bjartri framtíð
Sá flokkur sem er að sýna einna mestan stöðugleika í könnunum allra þeirra sem kanna fylgi stjórnmálaflokka eru Vinstri grænir. Fylgi þeirra mælist stöðugt um og yfir tíu prósent og tekur lítinn kipp upp á við í nýjustu könnun MMR. Þar mælist fylgi þeirra slétt tólf prósent.
Þeir tveir flokkar sem komu nýir inn á Alþingi eftir kosningarnar vorið 2013 eru hins vegar að upplifa tvo algjörlega ólíka veruleika. Píratar, sem rétt skriðu inn á þing og fengu þrjá þingmenn, fara með himinskautum og mælast með 33,2 prósent fylgi. Það sem vekur einna mest athygli er hversu stöðugt þetta háa fylgi flokksins hefur verið í undanförnum könnunum. Hjá MMR hefur hann nú mælst með yfir 3o prósent í fimm könnunum í röð og yfir 20 prósent í sjö könnunum í röð.
Hinn nýji flokkurinn, Björt framtíð, er að sama skapi í frjálsu falli og mælist með langminnst fylgi þeirra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, eða 5,6 prósent. Ef kosið yrði í dag myndi Björt framtíð rétt svo skríða yfir fimm prósent þröskuldinn sem þarf til að ná inn þingmanni. Þetta er mikill viðsnúningur frá stöðu flokksins í könnunum fyrir ári síðan. Í lok júní 2014 mældist fylgi flokksins 21,8 prósent.