Samfylkingin, Píratar og Viðreisn hafa ákveðið að fylgjast að í viðræðum um myndun nýs meirihluta í Reykjavík næstu daga. Frá þessu greindi Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar og borgarstjóri, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Flokkarnir þrír mynduðu meirihluta ásamt Vinstri grænum á síðasta kjörtímabili en sá meirihluti féll í kosningunum á laugardag.
Vinstri græn fengu einungis fjögur prósent atkvæða í kosningunum og Líf Magneudóttir, oddviti flokksins, tilkynnti í gær að þau myndu ekki sækjast eftir því að vera í meirihluta á komandi kjörtímabili í ljósi þeirrar niðurstöðu.
Samfylkingin, Píratar og Viðreisn hafa samtals níu borgarfulltrúa og geta því myndað góðan 13 manna meirihluta með Framsóknarflokknum, sem vann mikinn kosningasigur og fékk fjóra borgarfulltrúa, eða tólf manna meirihluta með Sósíalistaflokki Íslands og Flokki fólksins. Ekki kemur til greina að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokki, stærsta flokknum í borginni, þar sem Samfylking, Píratar og Sósíalistaflokkurinn hafa útilokað slíkt samstarf.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagðist þó ekki útiloka samstarf við neinn í Morgunútvarpinu í morgun. Hún gæti alveg hugsað sér að mynda meirihluta með Viðreisn, Flokki fólksins og Framsóknarflokki, sem þó er ekki á borðinu sem stendur. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, sagðist reiðubúinn að starfa með öllum og að hann væri tilbúinn í samtal við alla. Engar viðræður væru þó hafnar en hann og Dagur muni hittast síðar í dag á fundi. Einar sagði að hann vildi líka ræða við Hildi.
Framsóknarflokkurinn var ótvíræður sigurvegari borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík á Laugardag. Undir forystu Einars Þorsteinssonar, fyrrverandi fréttamanns og nýliða í pólitík, náði flokkurinn í 18,7 prósent atkvæða sem skilaði honum fjórum borgarfulltrúum í stærsta sveitarfélagi landsins þar sem Framsókn hafði engan áður. Auk Framsóknar bættu Píratar og Sósíalistaflokkur Íslands við sig manni og fylgi en aðrir flokkar stóðu annað hvort í stað í fjölda borgarfulltrúa eða töpuðu slíkum.
Mest tapaði Sjálfstæðisflokkurinn, 6,3 prósentustigum og tveimur mönnum, og Samfylkingin kom þar skammt á eftir með litlu minna tap og missti sama fjölda borgarfulltrúa. Viðreisn tapaði öðrum borgarfulltrúa sínum og Miðflokkurinn sínum eina.
Samanlagt fylgi fráfarandi meirihluta dróst saman og varð einungis 41,1 prósent. Það skilaði þeim ellefu borgarfulltrúum, eða einum minna en þarf til að mynda meirihluta. Þetta er orðið nokkuð þekkt þróun í Reykjavík en allir meirihlutar sem setið hafa frá árinu 2006 hafa fallið í næstu kosningum á eftir.