Bára Huld Beck Einar Þorsteinsson
Ótvíræður sigurvegari kosninganna, ekki bara í Reykjavík heldur á landsvísu, er Framsóknarflokkurinn.
Bára Huld Beck

Sigrar og töp sveitarstjórnarkosninganna

Framsóknarflokkurinn vann sveitarstjórnarkosningarnar, ekki bara í Reykjavík heldur á landsvísu. Sjálfstæðisflokkur hefur aldrei verið minni í Reykjavík og virðist ólíklegur til að komast til valda í borginni, en vann einnig varnarsigra og sigra inn á milli. Vinstri grænum gengur ekkert ná fótfestu í stærstu sveitarfélögum landsins og eiga einn kjörinn fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu. Samfylkingin vann óvíða á utan Hafnarfjarðar og getur verið óhress með fylgistap í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri. Miðflokknum var víða hafnað með afgerandi hætti en getur þó alltaf huggað sig við 32 prósent í Grindavík. Kjarninn tók saman sigrana og töpin í sveitarstjórnarkosningunum í gær.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er ótví­ræður sig­ur­veg­ari sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna sem fram fóru í gær. Í stærstu 22 sveit­ar­fé­lögum lands­ins bætti flokk­ur­inn alls við sig 18 kjörnum full­trú­um, þar af fjórum í Reykja­vík og fjórum í Mos­fells­bæ, en sigrar flokks­ins þar eru sér­stak­lega eft­ir­tekt­ar­verðir þar sem á hvor­ugum staðnum átti flokk­ur­inn full­trúa á síð­asta kjör­tíma­bili.

Flokk­ur­inn vann einnig sér­stak­lega góða sigra í Hvera­gerði, þar sem hann átti þátt í að fella hreinan meiri­hluta sjálf­stæð­is­manna sem hafði staðið óslitið frá árinu 2006 og í Borg­ar­byggð, þar sem flokk­ur­inn náði hreinum meiri­hluta eftir að hafa setið einn í minni­hluta.

Þá hélt flokk­ur­inn sínu eða bætti við í mörgum öðrum sveit­ar­fé­lög­um. Fyrir utan Fram­sókn­ar­flokk­inn, sem á nú 50 kjörna full­trúa í 22 stærstu sveit­ar­fé­lögum lands­ins, getur eng­inn stjórn­mála­flokkur verið að öllu leyti sáttur við útkomu kosn­ing­anna.

Súr töp en nokkrir sigrar hjá Sjálf­stæð­is­flokki

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn tap­aði mestu fylgi allra flokka í Reykja­vík frá síð­ustu kosn­ingum og hefur aldrei nokk­urn­tím­ann í sög­unni fengið lægra hlut­fall atkvæða í borg­inni, eða 24,5 pró­sent.

Samanburður 2018 og 2022
Infogram

Það þarf því ef til vill ekki að koma á óvart að Bjarni Bene­dikts­son for­maður flokks­ins hafi gert hug­myndir um að fækka borg­ar­full­trúum aftur úr 23 niður í 15 að umtals­efni í kosn­inga­vöku Rík­is­út­varps­ins í nótt, en sú aðgerð myndi leiða til þess að þrösk­uld­ur­inn til þess að kom­ast inn í borg­ar­stjórn yrði hærri og meira hlut­falls­legt afl innan borg­ar­stjórnar falla stærri flokkum eins og Sjálf­stæð­is­flokki í skaut.

Þrátt fyrir að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafi verið stærstur í borg­inni hefði hann þurft að vera stærri til þess að bæta vonir sínar um að kom­ast til áhrifa, en eina sjá­an­lega leið Sjálf­stæð­is­flokks­ins til valda í Reykja­vík liggur í gegnum meiri­hluta­sam­starf við þrjá aðra flokka; Fram­sókn, Við­reisn og Flokk fólks­ins. Sú sam­steypa verður að telj­ast fremur ólík­leg ef horft er til mál­efna­á­herslna flokk­anna fjög­urra – hið minnsta virð­ast lík­legri mögu­leikar í spil­unum í borg­inni.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í öðrum sveit­ar­fé­lögum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins má segja að nið­ur­staðan hafi verið súr­sæt fyrir Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Einn maður tap­að­ist í Hafn­ar­firði, en meiri­hlut­inn með Fram­sókn held­ur, þökk sé fylg­is­aukn­ingu Fram­sókn­ar. Á Sel­tjarn­ar­nesi hélt flokk­ur­inn hreinum meiri­hluta sínum með 50,1 pró­sent atkvæða og í Garðabæ fór fylgi flokks­ins undir 50 pró­sent. Þó eru enn 7 af 11 bæj­ar­full­trúum í Garðabæ sjálf­stæð­is­menn.

Í Mos­fellsbæ féll meiri­hlut­inn sem Sjálf­stæð­is­menn hafa leitt, þar sem sam­starfs­flokk­ur­inn Vinstri græn þurrk­að­ist út. Fram­sókn vann mik­inn sigur og gæti leitt aðra flokka til valda þar. Í Kópa­vogi má segja að flokk­ur­inn hafi unnið varn­ar­sigur þrátt fyrir að tapa einum full­trúa – og meiri­hlut­inn með Fram­sókn held­ur.

Á Ísa­firði tap­aði Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn manni og Í-list­inn sóp­aði til sín hreinum meiri­hluta. Einnig hefur flokknum vart tek­ist að hagga fylg­inu í Vest­manna­eyjum frá því árið 2018 og þar með er ekki útlit fyrir að flokk­ur­inn eigi leið að meiri­hluta.

Það voru þó sigrar líka, helst í Árborg. Þar fékk flokk­ur­inn stór­fína kosn­ingu og náði hreinum meiri­hluta og í Ölf­usi hélt hreinn meiri­hluti sjálf­stæð­is­manna einnig velli.

Í Fjarða­byggð náði flokk­ur­inn góðri kosn­ingu og fékk rúm 40 pró­sent, en það dugði þó ekki til að fella meiri­hluta Fram­sóknar og Fjarða­list­ans. Í Múla­þingi var flokk­ur­inn stærstur með tæp 30 pró­sent og heldur meiri­hluti Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn þar örugg­lega.

Kjörnum full­trúum Sjálf­stæð­is­flokks í 22 stærstu sveit­ar­fé­lögum lands­ins fækkar um 7 frá fyrra kjör­tíma­bili, eru nú 76 en voru 83 á síð­asta kjör­tíma­bili.

Vinstri græn biðu annað afhroð í Reykja­vík

Vinstri græn geta heilt yfir ekki gengið sátt frá þessum sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um, þrátt fyrir að eiga rétt eins og á síð­asta kjör­tíma­bili 9 kjörna full­trúa í sveit­ar­stjórnum 22 stærstu sveit­ar­fé­laga lands­ins. Flokk­ur­inn ætl­aði sér meira og bauð víðar sjálf­stætt fram en árið 2018.

Katrín Jak­obs­dóttir for­maður flokks­ins sagði í kosn­inga­vöku RÚV í nótt að það væri áhyggju­efni hve illa Vinstri grænum hefði gengið að ná fót­festu á sveit­ar­stjórn­ar­stig­inu.

Flokk­ur­inn náði ein­ungis einum full­trúa inn í sveit­ar­stjórnir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, Líf Magneu­dóttur borg­ar­full­trúa. Árangur flokks­ins í borg­inni var verri en árið 2018, sem þó þótti afhroð, en þá fékk flokk­ur­inn 4,6 pró­sent. Nið­ur­staðan nú varð slétt 4 pró­sent, en 2.396 borg­ar­búar kusu flokk­inn.

Líf Magneudóttir hefur leitt Vinstri græn til innan við fimm prósenta fylgis í tveimur borgarstjórnarkosningum í röð.
Bára Huld Beck

Í þing­kosn­ing­unum í haust var flokk­ur­inn með 14,7 og 15,9 pró­sent atkvæða í Reykja­vík­ur­kjör­dæm­unum tveimur og verður það að telj­ast aga­leg nið­ur­staða fyrir flokk­inn, sem er nú næstum því helm­ingi minni en Sós­í­alista­flokk­ur­inn sem hefur markað sér stöðu vinstra megin við Vinstri græn í borg­inni.

Eins og áður var nefnt þurrk­að­ist flokk­ur­inn út í Mos­fellsbæ eftir sam­starf með Sjálf­stæð­is­flokki og Vinstri græn náðu ekki heldur inn í Kópa­vogi né Hafn­ar­firði. Flokk­ur­inn náði ekki heldur manni inn í bæj­ar­stjórn í Fjarða­byggð, en þar ákvað flokk­ur­inn að slíta sig frá sam­starfi félags­hyggju­flokka í Fjarða­list­anum og bjóða fram undir eigin merkj­um. Í Árborg náði flokk­ur­inn engum manni kjörn­um.

Vinstri græn töp­uðu síðan miklu fylgi og einum manni í Borg­ar­byggð, en þar féll meiri­hlut­inn sem flokk­ur­inn hefur tekið þátt í. Flokk­ur­inn hélt sínu í bæði Skaga­firði, þar sem Vinstri græn eiga tvo full­trúa og á Akur­eyri, þar sem flokk­ur­inn á einn full­trúa.

Einu sigr­arnir sem Vinst græn geta stært sig af í kosn­ingum gær­dags­ins komu í Múla­þingi og Norð­ur­þingi, en í báðum sveit­ar­fé­lögum á flokk­ur­inn nú tvo kjörna full­trúa eftir að hafa átt einn í hvoru sveit­ar­fé­lagi áður.

Sam­fylk­ingin er ekki að dansa

Sam­fylk­ingin boð­aði sókn jafn­að­ar­manna á sveit­ar­stjórn­ar­stig­inu í þessum kosn­ing­um. Það gekk eig­in­lega hvergi eftir nema í Hafn­ar­firði, þar sem bæj­ar­stjór­inn fyrr­ver­andi Guð­mundur Árni Stef­áns­son reif fylgi flokks­ins upp að hæl­unum á Sjálf­stæð­is­flokknum og tvö­fald­aði fjölda full­trúa úr tveimur í fjóra. Einnig má Sam­fylk­ingin ágæt­lega við una á Sel­tjarn­ar­nesi, þar sem flokk­ur­inn fékk tæp­lega 41 pró­sent og bætti við sig einum full­trúa, sem dugði þó ekki til að skáka Sjálf­stæð­is­flokkn­um.

Skoð­ana­kann­anir í Reykja­vík í aðdrag­anda kosn­inga bentu til þess að Sam­fylk­ingin yrði stærsti flokk­ur­inn í borg­inni. Raunin varð önn­ur, 20,3 pró­sent atkvæða féllu flokknum í skaut, tæpum sex pró­sentu­stigum minna en árið 2018 og meiri­hlut­inn féll nokkuð afger­andi, sem hljóta að telj­ast von­brigði.

Hilda Jana Gísladóttir verður eini bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri á kjörtímabilinu.
Samfylkingin

Strax í ræðu til stuðn­ings­manna eftir fyrstu tölur í gær­kvöldi hóf Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri mikla brú­ar­smíði yfir til Ein­ars Þor­steins­sonar odd­vita Fram­sókn­ar­flokks­ins með tali um að flokkar núver­andi meiri­hluta og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn stæðu fyrir sam­bæri­legar hug­myndir um þróun sam­göngu- og skipu­lags­mála í borg­inni og verður fróð­legt að sjá hvernig sam­töl um meiri­hluta­við­ræður munu þró­ast næsta daga.

Tveir kostir í þeim efnum blasa við. Annað hvort gæti núver­andi meiri­hluti haldið sínum tíu full­trúm saman og reynt að sann­færa Sós­í­alista­flokk­inn um að Við­reisn sé ekki ófor­betr­an­legur auð­valds­flokk­ur, eða þá að núver­andi meiri­hluti tvístrist. Þá gæti Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn verið kall­aður að borð­inu með Sam­fylk­ingu og Píröt­um, en það er eini þriggja flokka meiri­hlut­inn sem er raun­hæfur í borg­inni í ljósi kosn­inga­úr­slit­anna.

Sam­fylk­ingin mátti víðar þola töp. Í Kópa­vogi tap­að­ist einn full­trúi af tveimur og lík­lega reytti bæj­ar­mála­fram­boðið Vinir Kópa­vogs fylgi af Sam­fylk­ingu umfram aðra flokka. Flokk­ur­inn tap­aði svo einum manni og tölu­verðu fylgi á Akur­eyri, heimabæ for­manns­ins Loga Ein­ars­son­ar.

Heilt yfir er Sam­fylk­ingin þó á svip­uðum stað hvað varðar fjölda full­trúa í sveit­ar­stjórnum 22 stærstu sveit­ar­fé­lag­anna og gengur inn í kjör­tíma­bilið með 26 full­trúa í þessum sveit­ar­fé­lögum í stað 27 áður og hélt flokk­ur­inn meðal ann­ars sínu í sveit­ar­fé­lögum á borð við Reykja­nesbæ og Akra­nes, þar sem flokk­ur­inn hefur verið í meiri­hluta­sam­starfi.

Píratar geta vel við unað á möl­inni

Píratar voru eini flokk­ur­inn í meiri­hlut­anum í borg­ar­stjórn Reykja­víkur sem bætti við sig fylgi frá því árið 2018, þrátt fyrir að fylg­is­aukn­ingin hafi verið minni en kann­anir höfðu sýnt. Flokk­ur­inn bætti við sig einum full­trúa í borg­ar­stjórn og virð­ist vera búinn að festa sig nokkuð þægi­lega í sessi í borg­ar­mál­unum og með ákveð­inn kjós­enda­hóp – sem mætir þó ekk­ert allt of vel á kjör­stað miðað við hvers mikið fylgi flokks­ins er ofmetið í könn­un­um.

Í Kópa­vogi bætti flokk­ur­inn lít­il­lega við sig og hélt sínum bæj­ar­full­trúa, en þar með eru afrek Pírata á sveit­ar­stjórn­ar­stig­inu nán­ast upp tal­in. Flokk­ur­inn reyndi fyrir sér í nokkrum sveit­ar­fé­lögum til við­bótar með slæ­legum árangri.

Á Ísa­firði var fylgið innan við fimm pró­sent, á Akur­eyri rétt rúm­lega þrjú pró­sent og í Reykja­nesbæ um fjögur pró­sent, sem í öllum til­fellum var fjarri því að duga til að koma manni að sveit­ar­stjórn­ar­borð­inu.

Sanna Reykja­vík og fæði, klæði, hús­næði á Akur­eyri

Sós­í­alista­flokk­ur­inn bauð ein­ungis fram í Reykja­vík og náði góðum árangri, fékk 7,7 pró­sent atkvæða í borg­inni og tvo menn kjörna. Flokk­ur­inn bauð ein­ungis fram í Reykja­vík­ur­borg og er því ásamt Fram­sókn senni­lega eini flokk­ur­inn sem starfar einnig á lands­vísu sem getur að öllu leyti glaðst yfir árangrinum sem náð­ist í kosn­ing­un­um.

Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir.
Bára Huld Beck

Flokkur fólks­ins var á svip­uðum stað í Reykja­vík og í kosn­ing­unum árið 2018 með rúm­lega 4 pró­sent og virð­ist eiga sér ákveðið fasta­fylgi á meðal borg­ar­búa, en Kol­brún Bald­urs­dóttir hefði eflaust þegið fleiri atkvæði.

Flokk­ur­inn bauð einnig fram á Akur­eyri og vann þar góðan kosn­inga­sig­ur, fékk mann kjör­inn inn í bæj­ar­stjórn í fyrstu til­raun og 12,2 pró­senta fylgi – meira en Sam­fylk­ing­in. Litlu mun­aði að flokk­ur­inn næði öðrum manni inn í bæj­ar­stjórn­ina nyrðra og verður árangur flokks­ins þar að telj­ast ansi öfl­ug­ur.

Nýkjör­inn bæj­ar­full­trúi flokks­ins þar heitir Brynjólfur Ingv­ars­son og er vafa­laust einn elsti nýlið­inn sem tekur sæti í sveit­ar­stjórn eftir þessar kosn­ing­ar, en Bryn­ólfur er 80 ára gam­all.

Við­reisn fékk þungt högg í borg­inni

Við­reisn tap­aði nokkru fylgi í Reykja­vík og Pawel Bar­toszek féll úr borg­ar­stjórn, sem er högg fyrir flokk­inn og dregur vænt­an­lega veru­lega úr mögu­leikum hans á að hafa afger­andi áhrif á stefnu­mörkun í nýju meiri­hluta­sam­starfi, ef hægt verður að púsla flokknum inn í slíkt.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verður eini borgarfulltrúi Viðreisnar á komandi kjörtímabili.
Bára Huld Beck

Ef til vill hugsa ein­hverjir innan Við­reisnar með sér að það væri skyn­sam­legt að standa utan meiri­hluta­sam­starfs á þessu kjör­tíma­bili í ljósi útkomu kosn­ing­anna, en álits­gjafar hafa sumir velt því fram að full­trúum Við­reisnar hafi reynst erfitt að skil­greina sig innan meiri­hluta­sam­starfs­ins í skugg­anum af Degi borg­ar­stjóra.

Við­reisn tap­aði einnig einum bæj­ar­full­trúa í Kópa­vogi og fram­boðið Fram­tíðin á Sel­tjarn­ar­nesi náði ekki Karli Pétri Jóns­syni inn í bæj­ar­stjórn, en hann sat fyrir Neslist­ann/Við­reisn á síð­asta kjör­tíma­bili. Við­reisn hélt full­trúum sínum í Hafn­ar­firði og í Mos­fellsbæ – auk þess að bjóða í fyrsta sinn fram sjálf­stætt í Garðabæ eftir að hafa klofið sig frá Garða­bæj­ar­list­anum og ná einum full­trúa inn með 13,3 pró­sent kosn­ingu.

Stór­sigur Mið­flokks­ins í Grinda­vík

Kosn­inga­nóttin var þung fyrir Mið­flokk­inn á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og raunar víð­ar. Flokk­ur­inn þurrk­að­ist út í Reykja­vík, Hafn­ar­firði, Mos­fells­bæ, Árborg og Reykja­nes­bæ, en í öllum þessum sveit­ar­fé­lögum átti Mið­flokk­ur­inn einn full­trúa á síð­asta kjör­tíma­bili.

Það var þó ljós í myrkr­inu fyrir Mið­flokk­inn og það ljós er í Grinda­vík. Þar bauð fram listi undir merkjum Mið­flokks­ins sem sóp­aði til sín 32,4 pró­senta fylgi, felldi meiri­hlut­ann og er stærsti flokk­ur­inn í bæj­ar­stjórn með þrjá full­trúa. Mið­flokk­ur­inn hélt svo sínum full­trúum í Norð­ur­þingi og Múla­þingi og er nú með sex sveit­ar­stjórn­ar­full­trúa á lands­vísu.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar