Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar, doktors í stærðfræði, sýnir að fylgi Framsóknar og flugvallavina er orðið nægt til að oddviti listans nái kjöri í kosningunum á laugardaginn. Samfylkingin heldur áfram að styrkja stöðu sína í borginni og hefur aldrei reiknast með meira fylgi en nákvæmlega í dag, tveimur dögum fyrir kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð halda áfram að tapa fylgi.
Tvær kannanir á fylgi framboðanna í Reykjavík birtust í morgun og sýna báðar kannanirnar svipaða þróun á fylgi flokkanna. Morgunblaðið birti könnun Félagsvísindastofnunnar og Fréttablaðið könnun sína. Framsóknarflokkurinn er kominn með nægjanlegt fylgi til að ná manni inn og Samfylkingin heldur áfram að styrkja stöðu sína og fær sex menn kjörna samkvæmt báðum könnunum. Fimmtán fulltrúar verða kjörnir í borgarstjórn á laugardaginn.
Þróun á fylgi framboðanna
Niðurstöður kosningaspárinnar 26. febrúar til 28. maí 2014.
[visualizer id="4616"]
Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn eru nú farin að daðra við 20 prósentin á meðan Samfylkingin er stungin af með 33,9 prósent. Kosningaspáin sýnir þó að Björt framtíð hefur tapað meira en Sjálfstæðisflokkurinn og er aftur orðið þriðja stærsta framboðið.
Kjarninn greindi frá því í morgun að Sjálfstæðisflokkurinn væri nú aðeins með þrjá fulltrúa. Það breytist ekki þó Björt framtíð hafi fallið aftur. Framboð Æ-listans fær nú einnig aðeins þrjá menn. Bæði framboðin höfðu nokkuð stöðugt fylgi fyrir fjórum fulltrúum lengst af kosningabaráttunnar en missa nú menn tveimur dögum fyrir kosningar. Meirihlutinn í borginni heldur með níu fulltrúum.
Kosningaspáin sýnir enn fremur að fylgi Pírata og Vinstri grænna heldur áfram að minnka. Spáin gerir ráð fyrir að framboðin tvö séu nú orðin svipað stór og framboð B-listans, um það bil sjö prósent. Það dugar öllum þremur til að fá oddvita sína kjörna í borgarstjórn.
Skipting fulltrúa í borgarstjórn
[visualizer id="4611"]
Þó kannanirnar tvær sem birtust í dag sýni í meginatriðum sömu þróun er nokkur munur á fylgisþróun hvers framboðs. Könnun Félagsvísindastofnunnar mælir fylgi Samfylkingarinnar til að mynda vera 37,3 prósent, tæplega tveimur prósentustigum meira en í könnun Fréttablaðsins. Að sama skapi mælist fylgi Framsóknarflokksins 9,2 prósent í könnun Fréttablaðsins en 5,5 prósent í könnun Félagsvísindastofnunnar.
Meginmunurinn á þessum könnunum er framkvæmd þeirra. Fréttablaðið aflar svara í síma á tveggja daga tímabili (í þessu tilviki 27. og 28. maí) en Félagsvísindastofnun styðst við svör úr bæði úthringingum og vefhóp sem aflað var dagana 21. til 26. maí. Kosningaspáin vegur niðurstöðurnar með nýjustu könnunum sem fyrir liggja og því eru fylgissveiflurnar ekki eins dramatískar og sýnt er fram á í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.
Nýjasta kosningaspáin byggir á síðustu sex könnunum sem birtar hafa verið.
- Könnun Félagsvísindastofnunnar sem gerð var dagana 12. til 15. maí.
- Könnun Capacent/Gallup sem gerð var dagana 7. til 21. maí.
- Könnun MMR sem gerð var dagana 20. til 23. maí.
- Könnun MMR sem gerð var dagana 26. til 28. maí.
- Könnun Fréttablaðsins sem gerð var dagana 27. til 28. maí.
- Könnun Félagsvísindastofunnar sem gerð var dagana 21. til 27. maí.
Síðbúin sókn Framsóknar og flugvallarvina
Það verður að teljast nokkuð merkilegt að B-listinn undir forystu Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur sé fyrst nú að ná vopnum sínum eftir að hafa verið í vandræðum alla kosningabaráttuna. Fylgi framboðsins hefur aldrei farið upp fyrir fimm prósent, síðan kosningaspáin var fyrst reiknuð 26. febrúar, fyrr en í gær þegar könnun MMR mældi Framsókn nógu stóra til að fá mann kjörinn.
Oddvitavandræði flokksins fóru hæst í apríl eftir að Óskar Bergsson hætti við að taka fyrsta sætið á lista Framsóknar. Þá var Guðni Ágússtsson oftast nefndur sem oddvitaefni flokksins í Reykjavík en á endanum varð úr að Sveinbjörg Birna var valin. Hún er jafnframt formaður Landssambands framsóknarkvenna. Hópur fólks sem vill halda flugvellinum í Vatnsmýri var þá í lok apríl, tekin upp á vagninn og bjóða Framsókn og flugvallarvinir saman fram í borginni.
Ástæður þess að framboðið skuli fá byr í seglin nú geta verið margvíslegar en erfitt er að líta fram hjá ummælum Sveinbjargar Birnu 23. maí síðastliðinn um skoðanir hennar á úthlutun lóðar undir mosku í Sogamýri. Vísir.is hafði þá eftir henni að: „[á] meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna.“ Kannanir gætu fyrst núna, sex dögum eftir að ummælin féllu, verið að mæla áhrif þessarar stefnu Sveinbjargar.
Ummælin hafa dregið dilk á eftir sér. Hreiðar Eiríksson, fimmti maður á B-lista, hefur dregið stuðning sinn við framboðið til baka og forysta Framsóknarflokksins hefur áréttað að skoðanir Sveinbjargar endurspegli ekki skoðanir og stefnu flokksins. Mótframbjóðendur Sveinbjargar hafa flestir staðið upp og sagt mikilvægt að trúfrelsi sé virt.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tjáði sig fyrst í hádeginu í dag um málið. Hann hefur hingað til beðist undan viðtali og sagst ekki þekkja málsatvik nógu vel til að geta tjáð sig um það. Sigmundur segir á Facebook-síðu sinni að Framsóknarflokkurinn hafi frá upphafi verið í fararbroddi í eflingu almannahags og mannréttinda, vilji rökræða og leyfa umræðu og að eðlileg niðurstaða sé þá sú að allir séu fæddir jafnréttháir.
Kosningaspáin verður uppfærð um leið og niðurstöður nýrra kannana eru birtar allt fram að kosningum.