Samfylkingin mælist nú með 9,9 prósent fylgi samkvæmt nýjustu könnun Gallup og hefur ekki mælst minni á kjörtímabilinu. Fylgi flokksins fellur um 2,5 prósentustig milli mánaða og er nú vel undir kjörfylgi, en Samfylkingin fékk 12,1 prósent atkvæða haustið 2017. Þetta er minnsta fylgi sem Samfylkingin hefur mælst með frá því í ágúst 2017, skömmu áður en að boðað var til kosningar það ár. Hæst mældist fylgið í janúar 2019, þegar 19,1 prósent landsmanna sögðust ætla að kjósa Samfylkinguna. Það hefur því helmingast frá þeim tíma. Samfylkingin, sem hefur mælst næst stærsti flokkur landsins þorra kjörtímabilsins, mælist nú sá sjötti stærsti. Fylgi flokksins hefur hríðfallið það sem af er ári, eftir að hann kynnti framboðslista sína fyrir komandi kosningar.
Píratar taka þorra þess fylgis til sín en þeir hækka úr ellefu í 12,9 prósent milli mánaða og eru nú þriðji stærsti flokkur landsins samkvæmt könnun Gallup. Viðreisn stendur hins vegar í stað og mælist með 10,9 prósent fylgi. Þetta er í fyrsta sinn sem Píratar og Viðreisn mælast stærri en Samfylkingin á kjörtímabilinu. Samanlagt fylgi þessara þriggja stjórnarandstöðuflokka er nú 33,7 prósent.
Vinstri græn standa í stað milli mánaða og mælast með 14,7 prósent fylgi. Það gerir Framsóknarflokkurinn líka en 10,3 prósent landsmanna segjast styðja hann. samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist 49,1 prósent en allir eru að mælast undir kjörfylgi. Slíkt fylgi myndi þó að óbreyttu duga þeim til að halda áfram stjórnarsamstarfi með 33 þingmenn af 63.
Það er lítið eitt meira fylgi en það stjórnarmynstur sem ræður ríkjum í Reykjavíkurborg – Vinstri græn, Píratar, Viðreisn og Samfylking – en þeir mælast samanlagt með 48,6 prósent fylgi. Það myndi líka duga fyrir 33 þingmönnum og þriggja manna meirihluta.
Miðflokkurinn fellur en Sósíalistaflokkurinn inni
Miðflokkurinn er á svipuðum slóðum og hann hefur verið í könnunum undanfarið, með 7,5 prósent fylgi. Það er töluvert undir kjörfylgi hans, en flokkurinn fékk 10,9 prósent atkvæða 2017.
Flokkur fólksins hefur einungis einu sinni mælst með fimm prósent fylgi frá því í lok árs 2018, það var í mars síðastliðnum þegar fylgi flokksins mældist slétt fimm prósent. Hann stendur nánast í stað milli mánaða og nýtur fylgis 4,2 prósent landsmanna.
Að óbreyttu myndu því átta flokkar ná inn á þing. Sósíalistaflokkur Íslands myndi taka stað Flokks fólksins.
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar milli mánaða og mælist nú 58,7 prósent.