Hagnaður Samherja hf. var 7,8 milljarðar króna á árinu 2020. Eigið fé félagsins, sem heldur utan um innlendan rekstur Samherja, starfsemina í Færeyjum auk eignarhluta í nokkrum skráðum félögum, var samtals 78,8 milljarðar króna í lok árs og eiginfjárhlutfallið 72 prósent.
Þrátt fyrir heimsfaraldur voru rekstrartekjur Samherja 46,5 milljörðum króna á árinu 2020 samkvæmt rekstrarreikningi.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Samherja.
Tilkynnt var opinberlega um eigendaskipti á Samherja hf. 15. maí í fyrra. Þá birtist tilkynning á heimasíðu Samherjasamstæðunnar um að Þorsteinn Már Baldvinsson, Helga S. Guðmundsdóttir og Kristján Vilhelmsson væru að færa næstum allt eignarhald á Samherja hf., sem er eignarhaldsfélag utan um þorra starfsemi samstæðunnar á Íslandi og í Færeyjum, til barna sinna. Sú tilfærsla átti sér þó stað á árinu 2019.
Þau halda hins vegar áfram að vera eigendur að erlendu starfseminni, og halda á stórum hlut í Eimskip, sem hefur frá 2018 verið vistað inni í öðru eignarhaldsfélagi, Samherja Holding ehf.
Samherji Holding, hinn helmingur samstæðunnar, hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árin 2019 og 2020. Samherja-samstæðan átti eigið fé upp á 110,7 milljarða króna í lok árs 2018. Hagnaður Samherja, þegar bæði Samherji hf. og Samherji Holding voru talin saman, vegna ársins 2018 nam samtals um 11,9 milljörðum króna.
Hagnaður Samherjasamstæðunnar hafði numið yfir 112 milljörðum króna á átta árum, frá árinu 2011 og fram til loka árs 2018. Síðan þá hafa að minnsta kosti 17 milljarðar króna bæst við vegna afkomu Samherja hf., en óljóst er hversu miklum hagnaði Samherji Holding hefur skilað.