Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefur undanfarin misseri reglulega látið rannsóknarfyrirtækið Gallup mæla viðhorf almennings til fyrirtækisins og viðbragða þess við ásökunum um mútur í Namibíu. Því heldur fyrirtækið nú áfram, í kjölfar þess að hafa beðist afsökunar á „mistökum“ sem gerð voru í rekstri félagsins í Namibíu fyrir röskum mánuði síðan.
Þeir sem eru í svonefndum viðhorfahópi Gallup, sem svarar spurningum um ýmis efni, hafa reglulega fengið sendar spurningar um fyrirtækið og viðhorf þeirra til þess. Slíkar spurningar bárust til viðhorfahópsins í vikunni.
Þátttakendur voru spurðir að því hvað það væri það fyrsta sem þeim dytti í hug þegar fyrirtækið Samherji væri nefnt, hversu mikið eða lítið traust þeir bæru til Samherja, hversu ánægt eða óánægt þeir væru með „aðgerðir Samherja í kjölfar ásakana um mútur í Namibíu“, hversu mikið þeir hefðu fylgst með málum Samherja að undanförnu og hversu jákvæðir eða neikvæðir þeir væru gagnvart Samherja.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gallup tekur púlsinn á því hver ímynd Samherja í hugum landsmanna frá því að Samherjaskjölin komu upp á yfirborðið í nóvember árið 2019, í umfjöllunum Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera.
Snemma í desember það sama ár voru þeir sem eru í viðhorfahópi Gallup meðal annars spurðir út í það hvort þeir bæru traust til Björgólfs Jóhannssonar, sem þá hafði nýlega tekið við stjórnartaumunum hjá félaginu eftir að Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri steig til hliðar.
Tvær afsökunarbeiðnir
Forsvarsmenn Samherja hafa verið tvívegis beðist afsökunar á undanförnum mánuðum. Fyrri afsökunarbeiðnin kom í kjölfar þess að Kjarninn og Stundin höfðu opinberað starfsemi svokallaðrar „skæruliðadeildar“ Samherja. Í henni sagði að ljóst væri að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið“.
„Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins, en ekki var útskýrt í frekari smáatriðum að hvaða leyti gengið hafi verið of langt eða nákvæmlega hverju verið sé að biðjast afsökunar á.
Þann 22. júní birti fyrirtækið svo heilsíðuauglýsingar í báðum helstu prentmiðlum landsins, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, undir yfirskriftinni „Við gerðum mistök og biðjumst afsökunar“. Um var að ræða ræða bréf sem fjallaði um starfsemi útgerðarinnar í Namibíu og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skrifaði undir bréfið.
Þar sagði að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hefðu fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu. Veikleikar hefðu verið í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast. „Við brugðumst ekki við eins og okkur bar. Þetta hefur valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, fjölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu. Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar,“ sagði í þessu bréfi Þorsteins Más.
Nú virðist fyrirtækið vera að kanna hvernig þessar afsökunarbeiðni lagðist í landann, en niðurstöður þessara kannana Gallup hafa hvergi verið birtar opinberlega.
Eina könnunin um málefni Samherja sem birt hefur verið opinberlega að undanförnu er könnun sem fréttablaðið Stundin fékk MMR til þess að framkvæma í janúar á þessu ári tengslum við umfjöllun blaðsins um áhrif Samherja á nærsamfélag sitt á Eyjafjarðarsvæðinu.
Samkvæmt þeirri könnun trúðu 92 prósent landsmanna því að Samherji hafi átt aðild að mútugreiðslum til stjórnmála- og embættismanna í Namibíu.