Íslendingur úr áhöfn togara í eigu Samherja, sem gerður var út í Namibíu, fékk laun sín greidd frá færeyska félaginu Tindholmur, sem Samherji stofnaði þar í landi árið 2011. Gögn sýna að hann hafi auk þess verið ranglega skráður í áhöfn færeysks flutningaskips í eigu Samherja, en útgerðum býðst 100 prósent endurgreiðsla á skattgreiðslum áhafna slíkra skipa. Þannig er talið að málum hafi verið háttað með fleiri sjómenn sem unnu fyrir Samherja í Namibíu. Fyrir vikið greiddu sjómennirnir ekki skatta í́ Namibíu og Samherji þurfti því́ ekki að bæta þeim upp tekjutap vegna slíkra skattgreiðslna.
Þetta fyrirkomulag er, að mati færeyska skattasérfræðingsins Eyðfinns Jacobsen, augljóst brot á færeyskum lögum jafnvel þótt það sé namibíska ríkið sem sitji uppi með tapið. Björn á Heygum, fyrrverandi þingmaður í Færeyjum sem var stjórnarformaður Tindholms þar til félaginu var slitið árið 2020 og sem hefur setið í stjórnum fjölda félaga í eigu Samherja síðustu þrjá áratugi, segist hafa verið blekktur. Hann hafi ekki haft neina vitneskju um þetta fyrirkomulag við greiðslu launa. Björn segist ganga út frá því að það væri forstjóra og eigenda Samherja að tilkynna honum um hvað væri í gangi.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í heimildarmynd sem sýnd er í færeyska sjónvarpinu í kvöld og unnin var í samstarfi við Kveik og Wikileaks. Greint var frá efni hennar í fréttum RÚV klukkan 19.
Kæran er, samkvæmt yfirlýsingu á vef Samherja, fyrir rangar sakargiftir og „ýmis ummæli sem Jóhannes, eða fólk á hans vegum, hefur látið falla í fjölmiðlum og víðar að undanförnu“. Staðið hefur verið að fjársöfnun fyrir Jóhannes síðustu vikur, en söfnunin er á vegum erlendra félagasamtaka sem styðja við uppljóstrara.
Í viðtalinu sem Jóhannes veitti færeyska Sjónvarpinu, og birtist í áðurnefndri heimildamynd, segir hann þetta fyrirkomulag varðandi skráningu sjómanna Samherja í Namibíu vera ástæðu þess að hálf milljón Bandaríkjadollara hafi greidd frá́ útgerðum Samherja í Namibíu og til færeyska félagsins Tindholms, frá́ lokum árs 2016 til ársloka 2017.
Í ársbyrjun 2016 gengu í gildi lög í́ Namibíu sem skylduðu erlendar áhafnir fiskiskipa til að greiða skatta og skyldur í landinu.