Samkeppniseftirlitið á Íslandi hefur ekki haft neina aðkomu eða verið dönskum samkeppnisyfirvöldum innan handar í tengslum við rannsókn á dótturfélagi Eimskips í Danmörku sem snýr að stærri rannsókn á háttsemi í landflutningum í Danmörku þar sem grunur leikur á að fyrirtækið hafi brotið gegn dönskum samkeppnislögum. .
Þetta kemur fram í fyrirspurn Kjarnans til Samkeppniseftirlitsins, en í því segir jafnframt að það sé í höndum danskra samkeppnisyfirvalda að „ákveða hvort þau leita aðstoðar hjá Samkeppniseftirlitinu á grundvelli þess samstarfs sem mótast hefur á milli norrænna og evrópskra samkeppniseftirlita“.
Eimskip sendi frá sér tvær tilkynningar til Kauphallar á mánudagskvöld. Í annarri þeirra er greint frá því að á sunnudag hafi danska samkeppniseftirlitið framkvæmt húsleit í Álaborg hjá dönsku dótturfélagi Eimskip Holding B.V., sem er í eigu Eimskipafélags Íslands hf., á grundvelli dómsúrskurðar.
Í tilkynningunni segir að húsleitin snúi að „starfsemi Atlantic Trucking sem er hluti af Eimskip Denmark A/S og er hluti af rannsókn á háttsemi í landflutningum í Danmörku og tók til fleiri félaga á þeim markaði. Tilgangur húsleitarinnar er að rannsaka hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum danskra samkeppnislaga.
Staðfesta ekki að húsleitin sé hluti af stærri rannsókn á landflutningum
Danska samkeppniseftirlitið staðfestir í samtali við Kjarnann að húsleit hafi verið gerð hjá Atlantic Trucking en vill ekki staðfesta að húsleitin tengist stærri rannsókn á háttsemi í landflutningum í Danmörku líkt og fullyrt er í tilkynningu Eimskips. Þar sem rannsóknin stendur enn yfir vill danska Samkeppniseftirlitið ekki veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins, hversu umfangsmikil hún er eða hvenær megi búast við að henni ljúki.
Seinni tilkynning sem Eimskip sendi frá sér á mánudagskvöld snýr að sölu Eimskips á Goðafoss og Laxfoss, kom upp á yfirborðið eftir umfjöllun Kveiks um það í september 2020.
Þá var sagt frá því að Eimskip hefði selt skipin tvö til fyrirtækis sem heitir GMS, og sérhæfir sig í að vera milliliður sem kaupir skip til að setja þau í niðurrif í Asíu þar sem kröfur um aðbúnað starfsmanna og umhverfisáhrif niðurrifsins eru mun lakari en í Evrópu.