Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri LEX lögmannsstofu, segir það ánægjulegt fyrir lögmannastéttina að Karl Axelsson hrl. hafi verið skipaður dómari við Hæstaréttar, og segist viss um að hann muni gegna „störfum sínum í þágu lands og þjóðar af trúmennsku og einurð“.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá LEX lögmannsstofu, en Karl hefur lengi starfað þar og verið meðal eigenda. „Lögmenn hafa lengi bent á mikilvægi þess að fleiri dómarar í Hæstarétti búi yfir reynslu af lögmennsku. Það er því í senn ánægjulegt fyrir lögmannastéttina og þessa lögmannsstofu, sem Karl hefur tekið þátt í að byggja upp á undanförnum áratugum, að honum hlotnist sú mikla viðurkenning starfa sinna sem varanleg skipun hæstaréttardómara er. Samstarfsfólk hans hér hjá LEX óskar honum innilega til hamingju með embættið,“ segir í tilkynningu frá LEX lögmannsstofu.
Karl hefur sérhæft sig í eignar-, fasteigna- og auðlindarétti og hefur kennt laganemum eignarrétt við Háskóla Íslands síðastliðin 23 ár. Hann hefur flutt fjölda dómsmála, þar af mörg prófmál, fyrir Hæstarétti frá því hann hlaut málflutningsréttindi fyrir réttinum árið 1997, að því er segir í tilkynningu. Þá hefur hann sinnt verjendastörfum í ýmsum erfiðum sakamálum. Karl var settur hæstaréttardómari frá 16. október 2014 til 30. júní 2015.
Karl hefur verið eftirsóttur ráðgjafi allan sinn feril og sinnt bæði einstaklingum, félagasamtökum og hinu opinbera í störfum sínum hjá LEX. Hann hefur setið í og leitt starf fjölmargra stjórnskipaðra nefnda, m.a. á sviði stefnumörkunar í auðlinda- og orkumálum og um starfsumhverfi fjölmiðla. Einnig hefur hann komið að gerð fjölmargra lagafrumvarpa á sínum sérsviðum, samið greinar um lögfræðileg málefni og flutt fjölda fyrirlestra, einkum á sviði eignarréttar.
Hann segist ætla að leggja sig allan fram á nýjum starfsvettvangi sem Hæstaréttardómari. „Ég kveð samstarfsfólk mitt á LEX með söknuði en hlakka um leið mjög til þess verkefnis sem bíður mín. Hafandi gert lögin að ævistarfi þá eru fá viðfangsefni jafn göfug og að sinna störfum fyrir æðsta dómstól lýðveldisins. Ég mun leggja mig allan fram um að vera verðugur þess mikla trausts sem mér er sýnt með skipan í embætti hæstaréttardómara.“