Útgefendur og ritstjórar fimm af stærstu fjölmiðlum hins vestræna heims, bandaríska blaðsins New York Times, breska blaðsins Guardian, franska blaðsins Le Monde, þýska blaðsins Der Spiegel og spænska blaðsins El País, hvetja nú bandarísk stjórnvöld til þess að falla frá ákærum á hendur stofnanda WikiLeaks, Julian Assange.
Þetta kemur fram í opnu bréfi sem forsvarsmenn fjölmiðlanna fimm skrifuðu Bandaríkjastjórn í gær, en þar segir að ákæran á hendur Assange setji „hættulegt fordæmi“ sem gæti haft kælingaráhrif á umfjöllun um þjóðaröryggismál.
Í bréfinu frá miðlunum segir að að það að komast yfir og greina frá viðkvæmum upplýsingum þegar það er nauðsynlegt í almannaþágu sé kjarninn í daglegu starfi blaðamanna. „Ef sú vinna er gerð glæpsamleg, veikir það opinbera umræðu og lýðræðin okkar verulega,“ segir í bréfi miðlanna.
Öll þessi fimm fjölmiðlafyrirtæki sem nú skora á Biden-stjórnina um að falla frá ákærunum störfuðu með Assange á árunum 2010 og 2011, en WikiLeaks komst yfir ýmis gögn frá bandarísku utanríkisþjónustunni og hernum og lét hefðbundnum fjölmiðlum þau í té. Fréttir voru sagðir af þeim leyndarmálum sem finna mátti í gögnunum um allan heim.
Í bréfinu frá útgefendum fjölmiðlanna fimm segir að árið 2011 hafi forsvarsmenn þessara sömu miðla gagnrýnt Assange fyrir að birta gögnin óritskoðuð á WikiLeaks og að einnig hafi sumir útgefendur í hópnum áhyggjur af ásökunum á hendur Assange um að hann hafi reynt að hjálpa til við tölvuinnbrot í lokaðan gagnagrunn. „En nú erum við sameinuð í því að lýsa yfir þungum áhyggjum af áframhaldandi saksókn á hendur Julian Assange fyrir að komast yfir og birta trúnaðargögn,“ segir í bréfinu.
Þar er þess getið að Bandaríkjastjórn undir forystu Barack Obama hafi tekið þann pól í hæðina að ef ákæra ætti Assange þyrftu stjórnvöld einnig að ákæra blaðamenn hefðbundinna fjölmiðla sem fjölluðu um innihald gagnanna. Undir stjórn Donald Trump hefði afstaðan hins vegar breyst, og njósnalöggjöf frá 1917 sem hönnuð var til að taka á njósnum í fyrri heimsstyrjöld, verið notuð til að ákæra Assange, fyrstan fjölmiðlamanna.
„Þessi ákæra setur hættulegt fordæmi og gæti grafið undan tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna og frelsi fjölmiðla,“ segir í bréfi útgefendanna, sem segja að núna tólf árum eftir fjölmiðlar í samstarfi við WikiLeaks birtu Cable gate uppljóstranirnar sé kominn tími á að Bandaríkjastjórn hætti að eltast við Julian Assange fyrir að birta leyndarmál.
Assange, sem var handtekinn í Bretlandi árið 2019, hefur verið að berjast gegn framsali til Bandaríkjanna síðan þá. Alls hafa bandarísk yfirvöld lagt fram ákæru á hendur honum í átján liðum, sem gætu leitt til þess að hann yrði dæmdur í alls 175 ára fangelsi. Lögfræðingar Bandaríkjastjórnar hafa þó sagt, fyrir dómi í Bretlandi, að líkleg niðurstaða í máli Assange yrði 4-6 ára fangelsi.
Teymi frá WikiLeaks fundar með þjóðarleiðtogum í Suður-Ameríku
Íslenski fjölmiðlamaðurinn Kristinn Hrafnsson er í dag ritstjóri WikiLeaks. Hann er nú á ferð um Suður-Ameríku ásamt fleirum frá WikiLeaks og hefur til þessa átt fundi með tveimur forsetum ríkja álfunnar um mál Julian Assange.
Í gærkvöldi fundaði Kristinn með nýkjörnum forseta Brasilíu, Luiz Inácio Lula da Silva, og segir frá því í færslu á Facebook að honum hafi þótt sérstaklega vænt um fundinn þar sem Lula sé að fara í gegnum gríðarlega erfið valdaskipti, þar sem rífa þurfi stjórnartaumana af Bolsonaro.
„Við áttum gott spjall á löngum einkafundi um málefni Julian Assange og þær pólitísku ofsóknir sem beinast gegn honum og WikiLeaks. Lula hefur sjálfur þurft að þola slíkar ofsóknir og fangelsun og er pólitísk upprisa hans söguleg með kosningasigri fyrir tæpum mánuði. Þessi hlýi og þægilegi maður hét áframhaldandi stuðningi við þá baráttu að hrinda ógn við fjölmiðlafresli i heiminum sem ofsókninar gegn Julian fela í sér,“ skrifar Kristinn.
„Brasilía, stærsta og öflugasta ríki Suður Ameríku er að senda afdráttarlaus skilaboð til Biden stjórnarinnar. Það hefur Gustavo Petro forseti Kólumbíu þegar gert með skýrum hætti,“ segir Kristinn, sem fundaði með Kólumbíuforseta á dögunum og segir heimsóknir til fleiri landa framundan.
Me reuní con los voceros de Wikikeaks, para apoyar la lucha mundial por la libertad del periodista Julian Assange.
— Gustavo Petro (@petrogustavo) November 22, 2022
Le soliciaré al presidente Biden con otros presidentes latinoamericanos que no se pongan cargos a un periodista solo por decir la verdad pic.twitter.com/kWyoXrHhyV