Stjórn Arion banka var veitt heimild á aðalfundi bankans í gær til að breyta kaupréttaráætlun hans þannig að hámark þess sem hver fastráðinn starfsmaður má kaupa á ári var hækkað um 150 prósent, í samræmi við breytt ákvæði tekjuskattslaga. Að mati stjórnar var æskilegt að hafa heimild til að „nýta hið nýja hámark til að kaupréttaráætlunin nái því markmiði að samþætta hagsmuni starfsmanna við hagsmuni bankans með marktækum hætti.“
Kaupréttaráætlunin, sem nær til allra fastráðinna starfsmanna, var fyrst samþykkt á aðalfundi Arion banka í mars í fyrra og markmið hennar er sagt vera að „samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímahagsmuni bankans.“
Í febrúar síðastliðnum var svo greint frá því að allir 628 fastráðnir starfsmenn Arion banka sem eiga rétt á að gerð kaupréttarsamning við bankann hafi gert slíkan. Í samningnum felst að starfsmennirnir áttu að geta keypt hlutabréf í bankanum fyrir alls 600 þúsund krónur einu sinni á ári í fimm ár. Fyrsti nýtingardagur er í febrúar á næsta ári en sá síðasti í febrúar 2026.
Aðalfundur Arion banka samþykkti hins vegar í gær að veita stjórn bankans heimild til breytinga á áður gerðri kaupréttaráætlun þannig að bankanum verði heimilað að gera kaupréttarsamninga við fastráðna starfsmenn félagsins um kaup á hlutum í bankanum fyrir allt að 1,5 milljón króna á ári.
Verði kaupréttirnir fullnýttir munu starfsmennirnir 628 geta keypt bréf fyrir 942 milljónir króna á ári.
Kaupaukakerfið samþykkt
Kaupaukakerfi Arion banka var einnig samþykkt eins og hún var lögð fram af stjórn bankans á aðalfundi hans sem fram fór í gær.
Í því felst að öllu fastráðnu starfsfólki Arion banka mun standa til boða að geta fengið allt að tíu prósent af föstum árslaunum sínum á árinu 2021 í kaupauka þegar ársreikningur bankans fyrir árið 2021 liggur fyrir, ef þau markmið sem nýtt kaupaukakerfi tilgreinir nást.
Þeir stjórnendur og það starfsfólk sem hefur hvað mest áhrif á tekjur og kostnað bankans mun geta fengið allt að 25 prósent af föstum árslaunum í kaupaukagreiðslu, en þá í formi hlutabréfa í bankanum sem verða ekki laus til ráðstöfunar fyrr en að þremur árum liðnum.
Þau markmið sem Arion banki þarf að ná til að kaupaaukakerfið fari í gang fela í sér að arðsemi bankans verðir að vera hærri en vegið meðaltal arðsemi helstu keppinauta bankans: Íslandsbanka, Landsbanka og Kviku. „Náist þetta markmið ekki, verður ekki greiddur út kaupauki. Heildarfjárhæðin sem veitt verður til kaupaukagreiðslna verður þó aldrei hærri en sem nemur arðsemi bankans umfram vegið meðaltal arðsemi samkeppnisaðila,“ segir í tilkynningu frá Arion banka til þeirra hlutabréfamarkaða sem bankinn er skráður á, en hann er tvískráður á Íslandi og í Svíþjóð.
Stærsti eigandinn var á móti
Gildi lífeyrissjóður, stærsti hluthafinn í Arion banka með 9,61 prósent hlut, tilkynnti nýverið að hann myndi greiða atkvæði gegn tillögu stjórnar Arion banka um starfskjarastefnu bankans. Í bókun sem sjóðurinn lagði fram sagði að hann teldi að stjórnin hafi ekki „með fullnægjandi hætti rökstutt þörfina og tilgang þess að nýta heimild til að koma á fót árangurstengdu launakerfi, aukningu kauprétta og áskriftarréttindum. Laun stjórnenda bankans virðast að mati sjóðsins, þegar tillit er tekið til möguleika á árangurstengdum greiðslum, kaupréttum og áskriftarréttindum, hærri en það sem gengur og gerist hjá öðrum íslenskum bönkum og skráðum fyrirtækjum sem starfa á íslenskum markaði.“
Mikilvægt er að mati Gildis að ef félög ákveði að notast við árangurstengd launakerfi sé gætt heildarsamhengis. Til dæmis að föst laun séu þá lægri samanborið við félög þar sem slík kerfi eru ekki til staðar. „Þá er mikilvægt að slíkt kerfi hvetji ekki til óeðlilegar áhættutöku,“ sagði í bókuninni.