Ásgeir Brynjar Torfason doktor í fjármálum segir að það eigi eftir að koma í ljós, hvort sú nær fordæmalausa ákvörðun helstu seðlabanka heims að frysta gjaldeyrisvaraforða rússneska ríkisins eftir innrásina í Úkraínu fyrir rúmu hálfu ári muni einhvern tímann ganga til baka, eða hvort gjaldeyrisvaraforðinn verði á endanum nýttur upp í stríðsskaðabætur til handa Úkraínumönnum.
„Þetta er eignaupptaka, eða eignafrysting, við skulum sjá til hvað verður,“ sagði Ásgeir Brynjar í samtali við Emil Dagsson, doktorsnema í hagfræði og ritstjóra Vísbendingar, í hlaðvarpsþættinum Ekon sem finna má í Hlaðvarpi Kjarnans.
Þar ræddu þeir Emil og Ásgeir Brynjar um efnahagsþvinganirnar sem Rússar hafa verið beittir frá því í lok febrúar, er Rússar hófu allsherjarinnrás sína í Úkraínu.
Ásgeir Brynjar minnti á það í þættinum að efnahagsþvingunum hefur verið beitt gegn Rússum allt frá árinu 2014 er Krímskagi var innlimaður, en sagði að þær hefðu ekki virkað neitt sérlega vel, þar sem leiðir til þess að komast hjá áhrifum þeirra hefðu fundist.
Það hefði síðan komið í ljós er Rússar réðust inn í Úkraínu að „stríðsherrann í Kreml“ væri búinn að safna vel í stríðskistu sína, auk þess sem Rússar væru byrjaðir að framleiða ýmsa hluti innanlands sem ekki voru framleiddir þar áður til þess að draga úr áhrifum viðskiptaþvingana úr vestri.
Ásgeir Brynjar segir hins vegar að frysting gjaldeyrisvaraforða Rússa í mörgum helstu seðlabönkum hafi verið svo stór og svo alþjóðleg að hún hafi verið viss „game-changer“ og náð „að færa vígvöllinn inn á svið reikningsskila, lögfræði og bókhalds inni í seðlabönkunum.“
Í þættinum setti Ásgeir Brynjar fram þá tilgátu að hin stóra alþjóðlega aðgerð, frysting gjaldeyrisvaraforðans, hefði valdið því að ný bylgja aðgerða skall á Rússum; sjálfviljugar aðgerðir fyrirtækja gegn Rússlandi, hafi orðið rosalega miklar.
„Það drógu sig út úr Rússlandi strax á fyrstu dögunum stórfyrirtæki. [...] Það fór af stað viðbótarflóðbylgja þvingana,“ segði Ásgeir Brynjar.
„Öll koffort í Moskvu halda áfram að fyllast af peningum“
En þrátt fyrir allar þær þrengingar sem Rússar hafa verið beittir undanfarið af vestrænum ríkjum og vestrænum fyrirtækjum hefur innrás rússneska hersins í Úkraínu ekki verið hrundið.
„Það sem er lykilatriði í að þessa viðskiptaþvinganir hafa ekki dugað eru undanþágurnar á orkusölunni. Það er olían og sérstaklega gasið,“ segir Ásgeir Brynjar og bendir á að olíukaupabannið á Rússa taki ekki gildi fyrr en næstu áramót. Þá taki enn lengri tíma að finna nýjar leiðir til þess að flytja gas, sem er nauðsynlegt evrópskum iðnaði, ekki síst þeim þýska. Einnig nefnir Ásgeir Brynjar að sumar þvinganir hafi áhrif sem komi fram á lengri tíma, og bendir í því samhengi á að íhlutir til reglubundins viðhalds rússneska flugflotans hafi ekki fengist frá innrásinni, sem kunni fyrst núna að fara að bíta.
En áframhaldandi verslun með olíu og gas „hefur gert það að verkum að öll koffort í Moskvu halda áfram að fyllast af peningum, af því bæði fer einingaverðið upp á gasinu og olíunni og það er undanþegið viðskiptaþvingununum svo það flæðir inn peningur til Rússlands á móti gasinu sem fer út,“ sagði Ásgeir Brynjar.
Þegar seðlabankar verða bankar ríkissjóðanna
Í þættinum ræddu þeir Ásgeir Brynjar og Emil einnig þann þrýsting sem mun fyrirsjáanlega skapast á stjórnvöld á meginland Evrópu í vetur, vegna verðbólgu og hækkandi orkuverðs. Ásgeir Brynjar sagði að rétt eins og ríkissjóðir heims hefðu aukið skuldir sínar í „stríðinu“ við kórónuveiruna væri fyrirséð að þess þyrfti aftur nú.
„Það er í raun þá sem seðlabankar verða bankar ríkissjóðanna, í stríðsástandi,“ sagði Ásgeir Brynjar.
„Þegar þetta stríð byrjar núna í Evrópu kallar það á útgjöld til hermála, varnarmálanna og útgjöld til að styðja Úkraínu en einnig útgjöld eins og við erum að sjá núna til þess að tempra orkukostnaðinn, viðbrögð við verðbólgunni og síðan þá öfugu efnahagsáhrifin á almenning okkar megin við víglínuna og langt frá víglínunni, verðbólgan er að fara upp alstaðar og fólk er að borga hærri húsnæðiskostnað [...] og öll lönd nema Ísland kannski að borga hærri upphitunarkostnað,“ sagði Ásgeir Brynjar, sem sagði tapið af stríðinu lenda um allt.
Hægt er að horfa á viðtal Emils Dagssonar við Ásgeir Brynjar Torfason í nýjasta þætti Ekon í myndbandinu hér fyrir neðan. Þættirnir Ekon eru styrktir af Háskóla Íslands, sem styður vísindamenn til virkrar þátttöku í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar. Einnig er hægt að hlusta á Ekon í Hlaðvarpi Kjarnans, sem finna má í öllum hlaðvarpsveitum.