Már Guðmundsson seðlabankastjóri segist vita hvað stöðugleikaskattur sé og líkir skattinum, þegar að honum komi, við mengunarskatt. Krónustöður í eigu erlendra aðila sem séu fastar á efnahagsreikningi þjóðarbúsins megi líkja við mengun sem hafi áhrif á þriðja aðila án þess að hann hafi nokkuð til saka unnið. Því sé réttlætanlegt að beita skattlagningu til að verja þann þriðja aðila. Þetta kom fram í máli Más á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd sem fram fór í morgun. Már var gestur fundarins ásamt öðrum fulltrúum úr peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Hægt er að horfa á fundinn hér:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tilkynnti það í yfirlitsræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins á föstudag að hrint yrði í framkvæmd áætlum um losun hafta áður en yfirstandandi þing lýkur störfum. Samkvæmt áætluninni muni sérstakur stöðugleikaskattur skila hundruðum milljarða króna samhliða þeim aðgerðum. Fyrir föstudaginn 10. apríl hafði hugtakið stöðugleikaskattur aldrei verið nefnt í íslenskum fjölmiðlum eða opinberum gögnum.
"Þá mætti líta á stöðugleikaskatt, þegar hann kemur til"...
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, spurði Má hvort hann vissi hvað stöðugleikaskattur væri og hvort hann væri fýsilegur kostur við losun hafta.
Már svaraði: „Já við vitum það. Það er ekki mitt á þessum punkti að útskýra það í einhverjum smáatriðum, en það hefur alla tíð legið fyrir að sá möguleiki er fyrir hendi að beita skattatækinu til þess að eiga við hluta af þessu vandamáli[vegna eigna slitabúa föllnu bankanna]. Það má eiginlega líkja, að einhverju leyti þessum krónustöðum sem eru hér fastar, þetta er eins og mengun í okkar efnahagsreikningi, efnahagsreikningi þjóðarbúsins. Þá mætti líta á stöðugleikaskatt, þegar hann kemur til, sem einhverskonar mengunarskatt.“
Már útskýrði þessi orð sín síðan þannig að mengun fylgdi svokölluð úthrif. Ef krónueignum kröfuhafa föllnu bankanna yrði sleppt lausum og þær myndu ryðjast í gegnum íslenskan gjaldeyrismarkað þá yrðu feykileg áhrif á aðila sem hefðu ekkert með málið að gera. „Það er alltaf réttlæting inngripa að hálfu ríkis í einhverju formi[..]það er það sem er til skoðunar.“