Seðlabanki Íslands telur sig ekki bundinn af þeim frestum sem slitastjórn Landsbankans hefur sett honum til að samþykkja eða hafna samkomulagi um lengingu á greiðslum skuldabréfs milli Landsbankans og slitastjórnar gamla Landsbankans. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, þarf líka að samþykkja samkomulagið til að það verði að veruleika. Hann hefur ekki svarað fyrirspurnum Kjarnans um málið.
Upphaflega var lagt upp með að niðurstaða lægi fyrir í síðasta lagi 8. ágúst, sem var síðastliðinn föstudag. Kjarninn greindi hins vegar frá því í gær að slitastjórn Landsbankans hefði lengt þann frest til 30. september. Í svari Seðlabankans við fyrirspurn Kjarnans um málið kemur fram að Seðlabankinn hafi gert slitastjórn Landsbankans grein fyrir því í bréfi dagsettu 14. júlí 2014 að „ekki yrði hægt að svara fyrir þennan tíma [8. ágúst] en stefnt yrði að því að veita svar fyrir áramót þegar vinna við stefnumótun varðandi uppgjör búa föllnu bankanna og losun hafta væri lengra komin“.
Seðlabankinn staðfesti að slitastjórn Landsbankans hefði sent bankanum bréf þar sem hún setur nýjan frest til loka september. Í svari bankans segir að bankinn muni taka það bréf til skoðunar.
Þann 5. maí var tilkynnt að samkomulag hefði náðst milli Landsbankans og slitastjórnar gamla Landsbankans um breytingu á uppgjörsskuldabréfum með eftirstöðvar að jafnvirði 226 milljörðum króna í erlendum gjaldeyri. Upphaflega átti að greiða skuldabréfin upp fram til ársins 2018. Löngu var orðið ljóst að það myndi setja þungar byrðar á íslenskt samfélag þar sem greiðslur í erlendum gjaldeyri næstu árin vegna bréfanna væru mun meiri en gjaldeyristekjur hagkerfisins myndu ráða við, sérstaklega þegar tekið er tillit til allra annarra greiðslna sem íslenska ríkið, sveitafélög og fyrirtæki þurfa að greiða í erlendum myntum á tímabilinu.
Í samkomulaginu fólst að greiðslutími bréfanna yrðu lengdur fram til október 2026. Samkomulagið var að margra mati, sérstaklega samningsaðilanna, undanfari að því að létt yrði á fjármagnshöftum.