Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir lögregluna á Akureyri hunsa skýran vilja löggjafans með því að nýta 228. og 229. grein almennra hegningarlaga til að gera blaðamenn að sakborningum. Vakti hún athygli á þessu á þingi í dag þar sem hún rifjaði upp að fyrir rétt rúmu ári stóð hún í ræðustól og kynnti álit allsherjar- og menntamálanefndar vegna breytinga á almennum hegningarlögum.
„Það var að setja blátt bann við stafrænu kynferðisofbeldi inn í hegningarlögin okkar. Þetta var gríðarlega mikilvægt skref, skref sem var stigið eftir mikla grasrótarbaráttu, eftir Free the nipple, eftir Me Too, eftir mikið ákall í samfélaginu eftir því að kynferðisleg friðhelgi yrði vernduð, einnig í hinum stafræna heimi. Ég var gríðarlega stolt af því að hafa fengið að fá að mæla fyrir sameiginlegu nefndaráliti allrar allsherjar- og menntamálnefndar til þess að bregðast við þessum ófögnuði sem stafrænt kynferðisofbeldi sannarlega er,“ sagði Þórhildur Sunna.
Greinarnar sem Þórhildur Sunna vísar í eru 228. og 229. grein almennra hegningarlaga, en þær lagagreinar eru undir í rannsókn lögreglu á máli sem tengist umfjöllunum sem Kjarninn og Stundin birtu síðasta vor um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja.
Taldi nefndina hafa tekið fyrir mögulega misnotkun á lögunum
Meðal þeirra breytinga sem gerðar voru var uppfærsla á friðhelgiskafla laganna. „Og það var ákveðið að til þess að vernda betur friðhelgi einkalífsins hjá borgurum þessa lands skyldi brot á þessum ákvæðum jafnvel varða opinbera ákæru, sem það hafði ekki gert áður. Allt var þetta ætlað til að vernda kynferðislega friðhelgi fólks vegna mikils ákalls í samfélaginu,“ sagði Þórhildur Sunna.
Með breytingunum var 229. grein meðal annars breytt þannig að hún hljóðar nú svona: „Hver sem í heimildarleysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“
Í áliti allsherjar- og menntamálanefndar vegna þeirra breytinga sagði að ákvæðið eigi ekki við „þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni.“ Fulltrúar allra flokka í nefndinni skrifuðu undir nefndarálitið.
Þórhildur Sunna segist hafa talið á sínum tíma að nefndin hafi tekið fyrir það sem er að raungerast nú, það er að undanskilja fjölmiðla frá þessu ákvæði. „Nú hefur lögreglan á Akureyri ákveðið að hunsa þennan skýra vilja löggjafans. Það hryggir mig og skemmir fyrir því stolti sem ég fann þegar ég stóð hér að mæla fyrir þessu nefndaráliti,“ sagði Þórhildur Sunna á Alþingi í dag.
Lætur reyna á lögmæti aðgerða lögreglu
Yfirheyrslur yfir blaðamönnunum fjórum: Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóra Kjarnans, Arnari Þór Ingólfssyni, blaðamanni Kjarnans, Aðalsteini Kjartanssyni, blaðamanni Stundarinnar, og Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks, áttu að hefjast í vikunni. Öll munu þau fá stöðu sakbornings við yfirheyrslurnar vegna meintra brota á friðhelgi einkalífsins.
Yfirheyrslunum hefur hins vegar verið frestað eftir Aðalsteinn krafðist úrskurðar Héraðsdóms Norðurlands Eystra um lögmæti aðgerðanna.
Tveir þeirra blaðamanna sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra starfa á Kjarnanum.