Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að vegna víðtækra bólusetninga almennings sé Ísland ekki á sama stað í faraldrinum nú og þegar þriðja bylgja faraldursins fór af stað. Því sé „ekki hægt að draga bara sömu aðgerðir upp úr poka“ til þess að hefta útbreiðslu COVID-19, sem er hröð þessa dagana.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin sé ekki farin að ræða frekari aðgerðir vegna stöðunnar í faraldrinum og að mikilvægt sé að sóttvarnayfirvöld og ríkisstjórnin fái „andrými til að meta stöðuna núna.“
„Við erum þannig að reyna það sem þjóð hvernig bóluefnin virka, en það fylgir því að vera fremstur í röðinni að enginn annar hefur neina forskrift fyrir okkur. Við þurfum sjálf að vega og meta stöðuna sem er það sem okkar góða vísindafólk er að gera,“ segir Katrín við Fréttablaðið.
Gætum fengið „hundruð og þúsundir smita“ eftir útihátíðir
Ör vöxtur smita undanfarna daga hefur valdið Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni áhyggjum þrátt fyrir hátt hlutfall bólusetninga.
Í viðtölum við fjölmiðla í gær og í dag hefur hann ekki skotið loku fyrir það að hann muni leggja til einhverjar innanlandsaðgerðir á næstunni til að stemma stigu við útbreiðslu smita í samfélaginu, nú þegar stórar útihátíðir eru framundan
Í samtali við Morgunblaðið í dag segir hann að viðburður á borð við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum gæti hrint af stað smitbylgju sem erfitt yrði að eiga við. „Við gætum fengið hundruð og þúsundir smita eftir slíkt,“ segir sóttvarnalæknirinn við blaðið.
56 smit greindust innanlands í fyrradag og sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í gær að ekki væri útlit fyrir annað en að fjöldi smita væri enn á uppleið. Hann sagði líklegt að Ísland yrði „rautt land“ á korti Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar strax á næstu dögum ef fram héldi sem horfir.
Kosningabarátta megi ekki flækjast fyrir viðbrögðum
Á stjórnmálasviðinu hefur gætt titrings vegna stöðu mála í vikunni. Eftir ríkisstjórnarfund á mánudag þar sem ákveðið var að grípari til hertra aðgerða á landamærum, með kröfu um neikvætt COVID-próf frá bólusettum frá og með næsta þriðjudegi, viðruðu ráðherrar Sjálfstæðisflokks efasemdir um rökin fyrir því að grípa til frekari aðgerða í samtölum við fjölmiðla.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði við Ríkisútvarpið þann sama dag að sjálfstæðismenn hefðu „komið fram með ýmsar efasemdir um ýmsar sóttvarnaráðstafanir, í raun frá upphafi faraldursins“ og fóru þau ummæli, samkvæmt Morgunblaðinu, fyrir brjóstið á sjálfstæðismönnum.
Sögðu ónafngreindir þingmenn við blaðið að ljóst væri af ummælum ráðherra Vinstri grænna að kosningabaráttan væri hafin, en alþingiskosningar fara fram eftir rúma tvo mánuði.
Forsætisráðherra segir við Fréttablaðið í dag að komandi kosningar megi ekki hafa áhrif á það hvernig stjórnvöld takast á við faraldurinn, heldur verði að taka skynsamlegustu ákvarðanir á hverjum tíma.
„Það er á okkar ábyrgð að tryggja það,“ segir Katrín við blaðið.