„Það er enginn ómissandi í pólitík, en það er enn þá verk að vinna,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í helgarviðtali Fréttablaðsins í dag. Hann segist ætla að gera það upp við sig fljótlega hvort hann haldi áfram í borgarpólitíkinni en segir að hann sé ekki kominn að niðurstöðu.
Hann segir jafnframt að honum finnist mikilvægt að sjá hvernig stórum málum reiðir af í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar og hvernig málum vindur fram hjá öðrum flokkum í borginni.
„Sjálfstæðisflokkurinn er því miður þverklofinn og ekki treystandi,“ segir hann. „Ef þú hefðir spurt mig í vor þá hefði ég líklega sagst vera að hætta. En ég ákvað að bíða með slíkar ákvarðanir.“
„Að sumu leyti finnst mér ég enn vera í miðju verki. Við náðum tímamótasamningum í samgöngumálum sem varða Borgarlínuna og hluta Miklubrautar og Sæbrautar í stokk. Þetta eru risaverkefni og mikil lífsgæðamál, en þar fyrir utan má nefna Sundabraut sem er komin í uppbyggilegan farveg. Ekkert af þessu er hins vegar komið í framkvæmd og einhver hluti af mér vill sannarlega sjá þetta til enda,“ segir borgarstjórinn við Fréttablaðið.
Hugsaði um að hætta eftir skotárásina
Dagur segir að skotárásin í byrjun árs við heimili hans og eiginkonu hans, Örnu Daggar Einarsdóttur, hafi fengið mikið á þau. „Mín ósjálfráðu viðbrögð voru þá; ég er hættur, þarna eru mörkin. Ég get ekki boðið fólkinu mínu upp á þetta. Hér verð ég að draga línu í sandinn.“
Í byrjun hafi þetta fyrst og fremst verið áfall. „Þegar á leið fann ég hvað þetta varpaði miklum skugga yfir svo margt. Já, þetta sat í mér og lagðist á mig eins og mara.“
Útilokar ekki að einhvern tímann í landsmálin
Dagur segir í viðtali Fréttablaðsins að hann ætli ekki að fullyrða að hann ætli aldrei í landsmálin. „Það hafa allt of margir brennt sig á því.“ Hann segir jafnframt að borgin hafi alltaf togað meira í sig en landsmálin.
„Borgarmálefnin eru vanmetin, en verkefnin bæði stór og skemmtileg. Viðfangsefnin eru líka svo nálægt manni og fyrir vikið er svo auðvelt að brenna fyrir þeim. Krakkarnir minna mig oft á þetta þegar við erum á ferð um borgina, en þá hef ég óvart tekið krók eða sveigt af leið til að skoða eitthvert uppbyggingarsvæðið.“
Hann segist hafa verið óvenju fljótur að hugsa sinn gang í aðdraganda síðustu þingkosninga þegar hann er spurður hvort þær hafi ekkert kitlað. „Það kemur dagur eftir þennan dag.“
Dagur hefur setið í borgarstjórn lengur en nokkur annar sem þar situr nú, eða frá árinu 2002, fyrst fyrir Reykjavíkurlistann en síðan fyrir Samfylkinguna. Hann hefur gegnt embætti borgarstjóra frá árinu 2014 en var áður borgarstjóri í hundrað daga, frá október 2007 til janúar 2008. Eina skiptið á ferli Dags sem hann hefur setið í minnihluta er kjörtímabilið 2006 til 2010, að undanskildum áðurnefndum 100 dögum, en miklar sviptingar voru í borgarstjórn á þessum árum og alls fjórir meirihlutar myndaðir.