Ríki heims geta enn komið í veg fyrir alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga svo lengi sem stjórnvöld ganga lengra í skuldbindingum sínum um minni losun gróðurhúsalofttegunda á næstu mánuðum, að mati John Kerry loftslagserindreka Bandaríkjanna. Í ræðu sem Kerry hélt í Kew Gardens í London hvatti hann ríki heims til þess að leggja fram nýjar áætlanir um minnkun losunar áður en loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, Cop 26, verður sett í Glasgow í nóvember.
Kerry sagði loftslagsvána vera eitt af stærstu vandamálum samtímans. Með því að minnka verulega úr losun á þessum áratug væri enn hægt að tryggja það að markmiðið Parísarsamkomulagsins um að halda hækkun hitastigs fyrir innan 1,5 gráður.
Gagnrýndi Kínverja
Kerry beindi spjótum sínum sérstaklega að Kína í ræðu sinni. Hann sagði Kínverja vera orðna þá þjóð sem bæri mesta ábyrgð á loftslagsbreytingum. Þá sagði hann skuldbindingar Kínverja ekki ganga nógu langt en þær kveða á um að losun Kínverja muni ná hámarki árið 2030 og fara lækkandi eftir það.
„Ef Kína heldur áfram að fylgja núverandi áætlun og nær hámarki útblásturs ekki fyrr en árið 2030 þá þarf restin af heiminum að ná kolefnishlutleysi árið 2040 eða jafnvel árið 2035,“ er haft eftir Kerry í frétt BBC. Hann sagðist vera fullviss um að Kína gæti gengið lengra en núverandi skuldbindingar þeirra segja til um og að Bandaríkin væru mjög viljug til þess að aðstoða við það verkefni. Ómögulegt væri að halda hlýnun fyrir innan 1,5 gráður án metnaðarfyllri markmiða frá Kínverjum.
Kerry sagði að öll stærstu hagkerfi heims þyrftu að gera betur og leggja meiri metnað í loftslagsmálum næsta áratuginn.
Bandaríkin hafa aukið niðurgreiðslu til framleiðslu jarðefnaeldsneytis
Frá því að Parísarsamkomulagið var undirritað hafa niðurgreiðslur G20 ríkjanna til kola-, olíu- og gasvinnslu numið meira en 3,3 billjónum Bandaríkjadala. Þetta meðal niðurstaða í nýrri skýrslu um hlýnun loftslagsins. Samkvæmt umfjöllun The Guardian um skýrsluna bera G20 ríkin ábyrgð á nær þremur fjórðu af útblæstri heimsins.
Í skýrslunni kemur fram að niðurgreiðslurnar hafi dregist saman um sem nemur tveimur prósentum á hverju ári frá árinu 2015 en þær námu um 636 milljörðum Bandaríkjadala árið 2019. Þrátt fyrir að samdráttur mælist þegar horft er til allra G20 ríkjanna er það ekki svo að þau hafi öll dregið úr niðurgreiðslum til vinnslu jarðefnaeldsneytis. Á milli árana 2015 og 2019 jukust niðurgreiðslur til eldsneytisiðnaðarins í Ástralíu um 48 prósent og um 37 prósent í Bandaríkjunum.