Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að hans reynslu af spillingamálum undanfarinna ára sé sú að lífeyrissjóðir landsins leggi meira kapp á að þagga niður og fela en að rannsaka og sækja rétt sinn fyrir hönd eigenda sinna. „Með öðrum orðum þá vegur orðspor stjórnenda meira en raunverulegir hagsmunir sjóðfélaga.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hann hefur birt á Facebook. Tilefni hennar er umfjöllun Kveiks í gærkvöldi þar sem greint var frá því að þjónustuaðili sem sér um rekstur á einu af tölvukerfum íslenskra lífeyrissjóða hafði rukkað sjóðina um vinnu sem efasemdir eru um að standist lög. Í þættinum kom fram að hundruð milljóna króna hefðu streymt út úr félaginu Init og annast rekstur umrædds tölvukerfis, sem heitir Jóakim og heldur meðal annars utan um öll réttindi þeirra sem greiða í lífeyrissjóði, til annars félags í eigu stjórnenda Init. Það félag heitir Init-rekstur. Á árunum 2013 til 2019 fór tæpur milljarður króna út úr Init til Init-reksturs.
Jóakim er í eigu tíu lífeyrissjóða og ýmis verkalýðsfélög greiða fyrir notkun á kerfinu.
Með sitt eigið kerfi
VR, stærsta stéttarfélag landsins, og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, þar sem VR skipar helming stjórnarmanna, eru ekki hluti af þessu fyrirkomulagi heldur reka sitt eigi skráningarkerfi. Ragnar Þór segir að það hafi samt sem áður verið dapurlegt að horfa á Kveik. Hann segir að ef eitt fyrirtækið sem starfi svona nálægt lífeyrissjóðum komist upp með svona viðskiptahætti, þá sé vert að spyrja sig hvernig öll önnur viðskipti við sjóðina fari fram. „Hvernig er eftirliti með fjárfestingum háttað þegar nýráðin framkvæmdastjóri stéttarfélags fer að gera athugasemdir við háan kostnað og flettir svo ofan af svindli sem hefur viðgengist um áraraðir ofan í hálsmáli sjóðanna?“ Sá nýráðni framkvæmdastjóri sem Ragnar minnist á er Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sem var til viðtals í Kveik í gær og lýsti því þar að hann hafi strax haft efasemdir um kostnað vegna greiðslna til Init þegar hann tók við starfi sínu fyrir nokkrum árum.
Meiri áhersla á að fela en að rannsaka
Formaður VR spyr hvar fleiri leka og sviksamleg athæfi sé að finna innan lífeyrissjóðanna. „Mín reynsla af þeim spillingarmálum sem komið hafa upp síðustu árin eru að sjóðirnir leggja meira kapp á að þagga niður og fela en að rannsaka og sækja rétt sinn fyrir hönd eigenda sinna. Með öðrum orðum þá vegur orðspor stjórnenda meira en raunverulegir hagsmunir sjóðfélaga. Þetta eru stór orð en auðvelt er að rökstyðja með spurningu: Hversu oft hafa lífeyrissjóðirnir farið í mál, eða leitað réttar síns, til að sækja bætur ef grunur er um sviksamlegt athæfi gagnvart þeim? Ég held að flestir viti svarið.“
Hann nefnir svo hrunmá sem dæmi og sérstaklega þá staðreynd að alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki hafi kvittað upp á ársreikninga fyrirtækja sem sagðir voru í lagi en hafi ekki reynst vera það, gjaldeyrisviðskipti lífeyrissjóðanna fyrir hrun, Bakkarvararmálið svokallaða þar sem hann áætlar að lífeyrissjóðirnir hafi tapað 50-60 milljörðum króna, fjárfestingu lífeyrissjóða í kísilverum á borð við United Silicon sem leiddu af sér mikið tap og Lindarvatns-málið.
Kallar eftir heildarendurskoðun
Ragnar Þór segir að versta form spillingar sé ekki glæpurinn sjálfur heldur að vita af honum og aðhafast ekkert. Meðvirkni og þöggun séu frjór jarðvegur spillingar og ábyrgð stjórnenda lífeyrissjóðanna sé mikill.
Hann hafi ætlað að í kjölfar mála eins og opinberuð voru í Kveik í gær kæmi hrina afsagna en veruleikinn sé sá að ekkert muni breytast. „En svona gerast hlutirnir þegar farið er með annara manna fé og eina leiðin til að breyta þessum eitraða kúltúr er að heildarendurskoðun fari fram á starfsemi lífeyrissjóðanna og að sjóðfélagar sjálfir munu skipa í stjórnir þeirra. Slíkt kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir spillingu og sviksemi en aðhaldið yrði margfalt betra og meira, því verra getur þetta ekki orðið.“