Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tjáir sig um sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka á Facebook í dag en stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt söluna harðlega.
Hann bendir í færslunni á að margt hafi verið sagt um síðustu sölu hluta í Íslandsbanka. „Fyrst vil ég segja að það skiptir yfirleitt máli að horfa á stóru myndina: Ríkið hefur fengið 108 milljarða fyrir hluti í banka sem það fékk í hendurnar án endurgjalds – og á enn 42,5% hlut. Hluthafar eru yfir 15 þúsund, en langstærstir eru lífeyrissjóðir og aðrir stórir langtímafjárfestar. Þetta er jákvætt og í samræmi við það sem lagt var upp með.
Það er mikilvægt og eðlilegt að Ríkisendurskoðun skoði spurningar sem er mjög skiljanlegt að hafa vaknað síðustu vikur. Það er hins vegar líka mikilvægt að leiðrétta augljósar rangfærslur stjórnarandstöðunnar, en þar er af nógu að taka síðustu daga,“ skrifar hann.
Ekki hægt að selja pabba sínum hluta í ríkiseign og sitja áfram eins og ekkert hafi í skorist
Vísar Bjarni í gagnrýni þingmanna Pírata og Samfylkingarinnar en Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata skrifaði á Facebook í gær að fjármálaráðherra bæri lokaábyrgð á því hverjir urðu kaupendur í ferlinu.
„Annað hvort vissi Bjarni að pabbi sinn, auk annarra úr hruninu, voru að kaupa í bankanum og varð þar með vanhæfur til að taka þessa ákvörðun, út af fjölskyldutengslum, eða að hann vissi það ekki og fór þar með gegn lögunum. Miðað við þær tilkynningar sem hafa komið frá fjármálaráðuneytinu þá var það hið síðara. Þar segir að Bjarni hafi ekki skoðað tilboðin neitt en honum ber að gera það samkvæmt lögunum og því hefur hann brotið lög.
Það er ekki hægt að selja pabba sínum hluta í ríkiseign og sitja svo bara áfram eins og ekkert hafi í skorist,“ skrifaði hún.
Fjármálaráðherra ber því lokaábyrgð á því hverjir urðu kaupendur í þessu ferli. Annað hvort vissi Bjarni að pabbi sinn,...
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Tuesday, April 19, 2022
Bjarni er ekki sammála þessu, að hann hafi þurft að fara yfir hvert og eitt tilboð, samþykkja þau eða hafna. „Þetta er alrangt,“ skrifar hann.
„Fyrst má benda á hið augljósa; í nýafstöðnu útboði voru tilboð á þriðja hundrað og í frumútboðinu skiptu þau tugþúsundum. Telja þingmennirnir raunverulega að markmið laganna hafi verið að ráðherra færi yfir hvert einasta tilboð og veldi eftir eigin höfði?“ spyr hann.
Ráðherra geti falið Bankasýslunni að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta
Bjarni segir að svarið við þessu þekki Samfylkingin og þingmaðurinn Oddný Harðardóttir best, enda hafi Oddný mælt fyrir málinu sem fjármálaráðherra. Markmiðið með lögunum hafi verið að fela framkvæmdina sérstakri ríkisstofnun til að tryggja hlutlægni við framkvæmdina. Hann telur að það sé fróðlegt að skoða framsöguræðu Oddnýjar við þetta tilefni en þar segir: „Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk Bankasýslu ríkisins við sölumeðferð verði meðal annars að undirbúa sölu, leita tilboða í eignarhlut, meta tilboð, annast samningaviðræður við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð.“
Vísar hann ennfremur í greinargerðina með frumvarpinu þar sem segir að gert sé ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslu ríkisins að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta og að sala hluta með útboði eða skráning bréfa í kauphöll sé ferli sem er frábrugðið hefðbundinni tilboðssölu. „Sem dæmi er ekki um mat á einstaka tilboðum eða eiginlegar samningaviðræður við einstaka kaupendur að ræða þegar almennt útboð eða skráning bréfa fer fram,“ segir í greinargerðinni.
Ráðherrann telur því að ekki þurfi að hafa mörg orð um að málflutningur stjórnarandstæðinga sé beinlínis rangur.
Margt hefur verið sagt um síðustu sölu hluta í Íslandsbanka. Fyrst vil ég segja að það skiptir yfirleitt máli að horfa...
Posted by Bjarni Benediktsson on Wednesday, April 20, 2022
Er Bjarni að rugla saman eða vísvitandi að blekkja?
Oddný tjáir sig um málið í stöðuuppfærslu á Facebook sem hún birti rétt í þessu. Þar segir hún að Bjarni sé „eitthvað að misskilja hlutverk sitt og Bankasýslunnar varðandi sölu hluta ríkisins í Íslandsbanka“.
„Í lögunum um Bankasýsluna er gert ráð fyrir armslengd frá ráðherra um rekstur bankanna. Í lögum um sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum en ábyrgð og hlutverk ráðherra beinlínis skrifuð inn. Þar er engin armslengd. Fjármálaráðherrann hefur lokaorðið og þarf að samþykkja og skrifa undir kauptilboðin.
Þessu tvennu virðist hann rugla saman nema að hann sé vísvitandi að reyna að blekkja okkur.“
Fjármálaráðherrann er eitthvað að missiklja hlutverk sitt og Bankasýslunnar varðandi sölu hluta ríkisins í...
Posted by Oddný Harðardóttir on Wednesday, April 20, 2022