Þjóðverjar munu þurfa fleiri innflytjendur til að koma í veg fyrir skort á framboð vinnuafls í Þýskalandi. Þetta sagði efnahags- og umhverfisráðherra landsins, Robert Habeck, á blaðamannafundi í gær.
Samkvæmt frétt Reuters um málið sagði Habeck, sem er einnig formaður þýska Græningjaflokksins og varakanslari, að landið stæði frammi fyrir krísu vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar.
Því til stuðnings benti ráðherrann á að þessa stundina væru 300 þúsund laus störf í landinu og að búist sé við að þau verði rúm milljón í framtíðinni. „Ef við lokum ekki þessu gati munum við enda með stórt framleiðnivandamál,“ bætti hann við.
Habeck nefndi nokkrar leiðir til að fjölga starfsfólki á fjölmiðlafundinum, meðal annars með bættri starfsþjálfun og fleiri starfsmöguleika fyrir fjölskyldufólk. Þar að auki segir hann að auka þurfi verulega innflutning á vinnuafli til landsins í öllum starfsgreinum. „Við þurfum að skipuleggja þetta,“ sagði hann.
Uppsafnaður skortur á vinnuafli
Samkvæmt mati þýsku samtakanna IW mun vinnumarkaðurinn þar í landi minnka um 300 þúsund manns í ár, sökum mikils fjölda fólks sem er komið á eftirlaunaaldur. Búist er við áframhaldandi minnkun vinnumarkaðarins á næstu árum og að uppsafnaður skortur á starfsfólki muni nema fimm milljónum árið 2030.
Fréttastofa Reuters segir ójafnvægið á milli stærða aldurshópa í landinu vera tilkomið vegna lítillar frjósemi og ójafns fjölda innflytjenda á milli ára síðustu áratugina. Þetta ójafnvægi er einnig vandamál fyrir þýska lífeyriskerfið, þar sem færri starfsmenn fjármagna nú ellilífeyri fyrir stærri þjóðfélagshóp en áður, auk þess sem ellilífeyrisþegar búa nú við auknar lífslíkur.