„Heilbrigðisráðherra er búinn að fella niður frumvarp sitt um afglæpavæðingu neysluskammta. Ég kann ekki að setja í orð vonbrigði mín en langar mest að fara að gráta.“
Þannig hljómar tíst Halldóru Mogensen þingflokksformanns Pírata á Twitter í morgun.
Samkvæmt svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans hefur frumvarpið verið fellt niður af þingmálaskrá yfirstandandi þings. Ástæðan sé sú að ráðherra ákvað að vinna að frekari útfærslu á frumvarpinu, meðal annars með skilgreiningu á hugtakinu neysluskammtur. Fram kemur hjá ráðuneytinu að settur hafi verið á fót starfshópur um verkefnið sem ráðherra skipaði þann 22. febrúar síðastliðinn og sé hann tekinn til starfa.
Skilgreiningin á dagskammti eða neysluskammti sett í reglugerð
„Starfshópnum er falið að skilgreina dagskammt eða neysluskammt í tengslum við framangreinda vinnu og er áætlað að setja þá skilgreiningu í reglugerð sem lögð verður fram með endurbættu frumvarpi. Auk þess verður skilgreiningin miðuð við íslenskan raunveruleika en í alþjóðlegu samráði, en þegar liggur fyrir í ráðuneytinu vilyrði frá Global Commisson on Drug Policy um samráð og aðgengi að sérfræðingum sem leitt hafa svipaða vinnu í öðrum löndum. Þá hefur Rannsóknastofa í afbrotafræði lýst yfir áhuga á að koma að gagnasöfnun meðal fólks sem notar ávana- og fíkniefni á Íslandi þar sem markmiðið yrði að notendareynsla og þekking þeirra nýttist til grundvallar vinnu við skilgreiningu á neysluskömmtum,“ segir í svari ráðuneytisins.
Starfshópinn skipa þau Helga Sif Friðjónsdóttir, sem er formaður, Bjarni Sigurðsson, Björg Þorkelsdóttir, Guðmundur Þórir Steinþórsson, Kristinn Páll Sigurbjörnsson, Hulda Elsa Björgvinsdóttir, Kristín Davíðsdóttir, Karl Steinar Valsson, Sylvía Björg Runólfsdóttir og Rafn M. Jónsson. María Sæm Bjarkardóttir, lögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, er starfsmaður hópsins.
Málið drepið í nefnd
Halldóra segir í samtali við Kjarnann að þingmenn hafi engar útskýringar fengið í morgun á því af hverju frumvarpið er ekki á þingmálaskrá.
Hún rifjar upp að Svandís Svavarsdóttir fyrrum heilbrigðisráðherra hafi sett fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta á síðasta þingi en við meðferð málsins hafi komið í ljós að ekki var stuðningur við málið innan ríkisstjórnarinnar. „Og þá var málið bara drepið í nefnd.“ Til stóð að Willum Þór Þórsson núverandi heilbrigðisráðherra myndi mæla fyrir frumvarpinu á ný í febrúar síðastliðnum en ekki varð af því.
Vont að draga málið á langinn
Halldóra er sjálf fyrsti flutningsmaður sambærilegs frumvarps en hún mælti fyrir því í byrjun desember síðastliðins. Málið er nú hjá velferðarnefnd og hefur nefndin talað við fyrstu gestina en til stendur að tala við fleiri í þessari viku. Halldóra segir að henni sé þó sama hver nái að koma málinu í gegn – „bara að það komist í gegn“.
Hún segir sem sagt að mikil þörf sé á að frumvarp sem þetta nái fram að ganga. Fólk með fíknivanda sé enn að fara á sakaskrá fyrir að bera í sínum fórum neysluskammta. Það fari hreinlega eftir því á hvaða lögregluþjóni það lendir hverju sinni hvort og hvernig því verði refsað.
„Þessi réttindaóvissa er svo vond staða og fólk veigrar sér við að sækja sér heilbrigðisþjónustu og sálfræðiþjónustu út af tilkynningarskyldu þar, eins og fram kom í máli gesta sem komu fyrir velferðarnefnd. Þetta er hræðileg staða sem við erum að setja vímuefnaneytendur í og þetta er skaðleg stefna sem við þurfum að hætta. Það er svo vont þegar verið er að draga þetta á langinn.“
Hún segir að svona bitni alltaf á jaðarhópum. „Það er ekki verið að taka bankamennina í jakkafötunum á kókaín-djamminu og leita á þeim og setja á sakaskrá. Þetta eru alltaf jaðarhópar – viðkvæmasta fólkið í samfélaginu þar sem refsingum er beitt.“
Heilbrigðisráðherra er búin að fella niður frumvarp sitt um afglæpavæðingu neysluskammta. Ég kann ekki að setja í orð vonbrigði mín en langar mest að fara að gráta.
— Halldóra Mogensen (@Halldoramog) March 21, 2022