Engin söguleg fordæmi eru fyrir efnahagsaðgerðum sem settar hafa verið á Rússland vegna innrásarinnar í Úkraínu. Aðgerðirnar eru ný tegund af efnahagslegum hernaði og hafa leitt til mikilla breytinga í alþjóðlega fjármálakerfinu. Þetta skrifar Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum, í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Samkvæmt Ásgeiri Brynjari eru aðgerðirnar einstakar vegna hraða þeirra og samtakamáttar ríkjanna sem beita þeim. Þessi viðbrögð, til viðbótar við sjálfviljugar aðgerðir alþjóðlegra fyrirtækja sem hafa flúið Rússland með hverjum deginum sem líður, eru að hans mati heimssögulegur viðburður.
Hann bætir við að aðgerðirnar, sem heimsbyggðin hefur ráðist í til að reyna að kremja Rússland efnahagslega, séu líkar stríðsaðgerðum að því leytinu til að þær bitna á saklausum almenningi í landinu. Einnig verði almenningur um allan heim fyrir barðinu á afleiðingum aðgerðanna, þar sem verð á ýmsum hrávörum hefur hækkað töluvert vegna þeirra.
Vegna þessara afleiðinga segir Ásgeir að nauðsynlegt verði að styðja við bæði úkraínskan og rússneskan efnahag að stríðinu loknu, fari svo að Rússland verði lýðræðisríki og hætti við innrásina, en samkvæmt honum mun þurfa ígildi Marshall-aðstoðarinnar til að endurreisa hagkerfi beggja ríkjanna.
Önnur fórnarlömb efnahagsaðgerðanna eru rússneskir ólígarkar, sem urðu ríkir með því að sölsa undir sig auðlindir rússnesku þjóðarinnar eftir fall Sovétríkjanna. Að mati Ásgeirs áttu Vesturlönd sinn þátt í auðgun þeirra með því að hvetja Rússland til að forgangsraða markaðsumbætur umfram stjórnarfarslegar umbætur á sínum tíma.
Ásgeir segir nýja lotu í hinum alþjóðlega peningaleik vera hafna með frystingu á eignum ólígarkanna um allan heim, sem áhugavert sé að fylgjast með. Mögulega verði spilin stokkuð upp á nýtt, þótt það sé einnig yfirvofandi hætta á að þeir sem svindli mest græði áfram mest. Samkvæmt honum liggur helsta vonin í fjármálastríðinu í þéttu samstarfi Evrópuríkja, sem sé drifið áfram af viljanum til að stöðva stríð.