Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að ef Alþýðusamband Íslands (ASÍ) ætli sér ekki að móta stefnu sína ekki út frá skoðunum og veruleika félagsmanna í aðildarfélögum sambandsins „heldur útfrá veruleikafirrtum hugmyndum menntaðrar millistéttar sem komið hefur sér fyrir í ráðuneytum, hjá hagsmunasamtökum hálaunaðra ríkisstarfsmanna og í samtökum atvinnurekenda þá er sambandið ekkert nema uppvakningur sem við skulum öll taka höndum saman um að kveða í gröfina.“
Þetta kemur fram í fjórðu og síðustu grein Sólveigar Önnu um átökin innan ASÍ sem birtist á Kjarnanum í morgun.
Hún telur einungis tvær leiðir séu færar fyrir ASÍ sem stendur. Önnur sé að horfast í augu við þá breyttu stöðu sem upp sé komin í íslenskri verkalýðsbaráttu með tilkomu nýrra afla inn í hana, laga sig að þeirri stöðu og breyta um kúrs. „Takist ASÍ ekki að breyta um kúrs er aðeins ein önnur leið fær: Hún er sú að þau félög sem vilja starfa í verkalýðshreyfingu sem er raunverulegt framfara- og mótstöðuafl skilji sig frá sambandinu.“
Verkföll eina vopnið sem getur leitt til árangurs
Sólveig Anna segir að ASÍ þurfi að fara í djúpa og alvarlega vinnu við að endurmeta stefnu sína.
Mögulega sé allt of margt fólk undir einum hatti
Sólveig Anna segir að ef ASÍ takist ekki að breyta um kúrs sé óumflýjanlegt að þau félög sem vilji starfa í verkalýðshreyfingu sem er raunverulegt framfara- og mótstöðuafl skilji sig frá sambandinu. Þar á hún meðal annars við tvö stærstu stéttarfélög landsins, VR og Eflingu.
ASÍ er í dag eina landssamband launafólks á almennum vinnumarkaði, með um 130 þúsund félagsmenn. Sólveig Anna segir að hugsanlega sé þetta alltof margt félagsfólk undir einum hatti, sérstaklega ef horft sé til samanburðar við opinberu félögin og landssambönd þeirra. „Opinberir starfsmenn deilast niður á þrjú félög (KÍ, BSRB og BHM) sem eru hvert um sig með á bilinu 10-24 þúsund félagsmenn. Slíkur fjöldi er miklu viðráðanlegri, og þetta fyrirkomulag hefur hvorki hamlað opinberu félögunum frá því að eiga í samstarfi sín á milli né við Alþýðusambandið eða aðra aðila vinnumarkaðarins. Tvö eða fleiri heildarsamtök á almenna vinnumarkaðnum gætu auðveldlega starfað hlið við hlið og sameiginlega í þeim málum þar sem samkomulag næðist um slíkt.“
Mörgum þyki vænt um nafn og sögu Alþýðusambands Íslands, sem sé skiljanlegt að mati Sólveigar Önnu, en á hinn bóginn geti það bersýnilega ekki gengið að sambandið aftri eðlilegri framþróun og nauðsynlegum breytingum í hagsmunabaráttu félagsfólks. „Það þarf að nálgast hlutina með opnum hug og kasta af sér fjötrum íhaldssemi og fortíðardýrkunar.“
Verkalýðshreyfingin á að nýta lífeyrissjóðina í þágu sinna markmiða
Það að leiða íslenskt verkafólk í baráttu fyrir betra þjóðfélagi krefjist þess ekki endilega að öll verkalýðshreyfingin sé sammála um lokamarkmið baráttunnar. „Á tuttugustu öld náðu verkalýðshreyfingar um heim allan oft miklum árangri með samvinnu sósíaldemókrata og kommúnista, sem voru á köflum ósammála um langtímamarkmið en gátu engu að síður starfað vel og náið saman um brýnni skammtímamarkmið. Ekkert segir að þetta sé ekki hægt, en hins vegar ljóst að hinir betur settu hópar innan ASÍ og annarra landssambanda þurfa að láta af hugmyndum um fastsetningu kjarabils á milli verkalýðsstéttar og millistéttar, sem birtist bæði í Salek-hugmyndafræðinni og í stefnunni um prósentuhækkanir launa.“
Þá telur Sólveig Anna að það þurfi að láta af kreddubundinni varðstöðu um lífeyrissjóðakerfið, sem sé löngu orðin að kvöð og byrði á verkalýðshreyfingunni. „Lífeyrissjóðirnir eru tæki sem verkalýðshreyfingin sjálf lét á sínum tíma smíða. Hreyfingin á að nýta sjóðina í þágu sinna markmiða, hvort sem það er í húsnæðismálum, varðandi samfélagsábyrgð fyrirtækja eða jafnaðarstefnu í launum innan fyrirtækja, en ekki láta sérfræðingaveldi sjóðanna eða rödd atvinnurekenda í stjórnum sjóðanna segja sér fyrir verkum. Þegar þessum kreddum hefur verið hent á ruslahauga sögunnar ættu okkur að vera fleiri leiðir færar.“