Kostnaður almannatrygginga vegna lífeyris aldraðra mun lækka á næstu árum, að óbreyttum reglum. Þetta segir Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og fyrrverandi fjármálaráðherra, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Aldraðir greiða líka skatta
Í greininni segir Benedikt að oft sé talað um að hluti af velferðarbyrðinni svonefndu sé bæði kostnaður við eftirlaun og umönnun aldraðra. Í því samhengi gleymist þó oft að líta á skattana sem aldraðir greiða, en þannig standi þeir undir hluta af samfélagskostnaðinum.
Samkvæmt útreikningum Benedikts, sem byggja á skýrslu Talnakönnunar um lífeyriskerfið fyrir Birtu lífeyrissjóð, hafa skattgreiðslur aldraðra aukist umfram fólksfjölgun á síðustu árum. Þær eru nú tæplega 15 prósent af heildarskattgreiðslum, en alls eru 16 prósent íbúa landsins á ellilífeyrisaldri. Til samanburðar borguðu aldraðir aðeins átta prósent af heildarskatttekjum árið 2005, þrátt fyrir að hafa verið 14 prósent af mannfjöldanum þá.
Í framtíðinni býst Benedikt svo við að skattgreiðslur aldraðra muni aukast enn frekar, samhliða hækkandi lífeyristekjum þeirra. Því til stuðnings bendir hann á spá Talnakönnunar um hlutfall eftirlauna af launum landsmanna á næstu árum, en samkvæmt henni mun það vaxa hraðar heldur en hlutfall aldraðra af íbúum landsins. Með þessu lækkar kostnaður almannatrygginga vegna lífeyris aldraðra, að óbreyttum reglum.
„Þetta sýnir tvennt,“ segir Benedikt í grein sinni. „Annars vegar að lífeyrisgreiðslur eru orðnar mun meiri en áður var, en jafnframt að aldraðir hafa með lífeyrissparnaði lagt fram sinn skerf til þjóðarbúsins og rangt að telja þá byrði á samfélaginu þegar allt er talið með.“
Afnám tekjutengingar kostnaðarsamt
Benedikt fer einnig yfir fyrri útreikninga sína sem sýndu að afnám tekjutengingar lífeyrisgreiðslna myndi kosta Tryggingastofnun ríkisins (TR) 100 milljarða króna. Hann segir töluna vera þó nær 105 milljörðum króna ef allir þeir sem eru með lífeyrisréttindi fengi fullan lífeyri frá TR og að 35 prósent þeirra fengju fulla heimilisuppbót.
Samkvæmt honum eru þessir útreikningar þó ekki nákvæmir. Aftur á móti ættu þeir að gefa nokkra mynd af hugsanlegum kostnaði Tryggingastofnunar vegna þess. Hann segir svo líka að hluti af þessari viðbótarfjárhæð færi aftur til ríkisins í formi tekjuskatta.