Ákvörðun Reykjavíkurborgar og hinna sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins um að byggja ekki íbúðahverfi á nýju landi er stór þáttur í nýlegri hækkun fasteignaverðs. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á vaxtaákvörðunarfundi bankans í gær.
Mikið var rætt um hraða hækkun fasteignaverðs á fundinum, en líkt og Kjarninn greindi frá á þriðjudaginn hefur verð á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu hækkað um tæp 14 prósent á milli aprílmánaða 2020 og 2021. Þetta er mesta 12 mánaða hækkun fasteignaverðs sem mæld hefur verið á svæðinu síðan árið 2017.
Engin húsnæðibóla enn
Samkvæmt nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans hefur húsnæðisverð þó hækkað minna en búist var við, ef miðað er við sögulegt samband þess við ráðstöfunartekjur og raunvexti. Skuldsetning heimilanna væri ekki óhófleg og því væri ekki um bólumyndun að ræða enn sem komið er.
Á vaxtaákvörðunarfundi sagði Ásgeir að nýleg hækkun húsnæðisverðs væri að hluta til drifin áfram af vaxtalækkunum sem bankinn þurfti að ráðast í til að bregðast við efnahagsáfallinu sem fylgdi heimsfaraldrinum í fyrra, líkt og önnur lönd. Því gæti hún mögulega verið byggð á tímabundnum þáttum.
Hins vegar sagði hann að aðrir þættir hefðu einnig jákvæð áhrif á fasteignaverð. „Mikil hækkun fasteignaverðs sem hefur átt sér stað er að einhverju leyti undirbyggð á skorti á framboði og skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg klárt,“ sagði Ásgeir.
„Sú ákvörðun að Reykjavík hafi ekki brotið nýtt land fyrir nýjar íbúðabyggðir á síðari árum, það er stór þáttur,“ bætti hann við. „Eins með hin sveitarfélögin, það er ekki verið mikið af nýju landi brotið fyrir húsnæði, það hefur mikil áhrif.“