Ingimar Karl Helgason, ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs, segir söluna á útgáfufélaginu Fótspori hafa komið sér í opna skjöldu. „Fréttir gærdagsins um að útgáfa blaðsins hefði verið seld til Vefpressunnar komu mjög á óvart. Satt að segja hafði útgefandinn fyrrverandi nýlega talað um að fjölga síðum í Reykjavík vikublaði með haustinu og hef ég heldur verið að hugsa á þeim nótum en öðrum.“
Þannig hljómar pistill sem Ingimar Karl skrifar inn á vefsíðu vikublaðsins undir fyrirsögninni: Kveðja frá ritstjóra. „Það blasir við að góðir hlutir hafa verið að gerast á Reykjavík vikublaði og raunar ýmsum öðrum blöðum Fótsporsútgáfunnar. Svo til allir aðrir fjölmiðlar hafa tekið upp fréttir úr næstum hverju einasta tölublaði Reykjavíkur vikublaðs allra síðustu misserin. Viðbrögð lesenda við efnistökum okkar og umfjöllun í Reykjavík vikublaði hafa jafnframt verið mjög mikil,“ skrifar ritstjórinn fráfarandi.
„Yfirleitt eru þau jákvæð og fólk hefur lýst mikilli ánægju með gagnrýna, málefnalega og sanngjarna blaðamennsku. Viðbrögð úr sumum afkimum ráðandi afla hafa líka styrkt okkur í þeirri trú að við höfum verið að gera eitthvað sem skiptir máli. Ég held satt að segja að þessi staðreynd hafi gert að verkum að útgáfufyrirtækið Fótspor hafði eitthvað til að selja þegar allt kemur til alls, hvernig sem á það er litið.“
Í samtali við Kjarnann kveðst Ingimar Karl ekkert hafa heyrt frá Birni Inga Hrafnssyni stjórnarformanni Vefpressunnar, né öðrum hjá félaginu. „Það eina sem ég veit er að frjóu og skemmtilegu tímabili Reykjavíkur vikublaðs hjá útgáfunni Fótspori er lokið. Ég veit ekki hvað tekur við. Hvorki hjá mér sjálfum, né hvað verður með blaðið. Ég frétti þetta bara í gær.“