Vala Árnadóttir, starfsmaður Eflingar, segir frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að hún hafi fengið uppsagnarbréf frá lögmanni úti í bæ um kl. 2 í nótt. Hún er í veikindaleyfi í kjölfar slyss og var búin að tjá Eflingu að hún myndi ekki snúa aftur til starfa hjá stéttarfélaginu, en mánuði eftir að hún lenti í slysinu síðasta sumar var henni tilkynnt að félags- og þróunarsvið Eflingar, sem hún starfaði hjá sem teymisstjóri félagamála, hefði verið lagt niður „vegna skipulagsbreytinga” og afþakkaði Vala starf á nýju sviði.
Vala segist vegna sinna veikinda og vegna fjölskyldustengsla við Sólveigu Önnu ekkert hafa viljað tjá sig um málefni Eflingar út á við til þessa, en segir að nú sé nóg komið.
Hún segir að stuttu eftir að sviðið sem hún starfaði hjá hafi verið lagt niður hafi „skrifstofa félagamála“ verið stofnuð og Viðar Þorsteinsson settur þar yfir, en skrifstofa hans og starfsfólk hafi þjónað sama tilgangi og félags- og þróunarsvið gerði áður, þannig að skipulagsbreytingin hafi verið nánast engin og ekki til neins fallin nema að að „losa sig við sumt starfsfólk“ og „setja Viðar yfir einingu sem hann myndi geta sætt sig við eftir að fjölda kvartanna í hans garð gerðu honum erfitt um vik að starfa áfram sem framkvæmdastjóri.“
Vala segist hafa stutt þær konur sem „kvörtuðu undan framkomu og eineltistilburðum Viðars“ og segir að hún hafi beðið Sólveigu Önnu um að standa með þeim líka, fyrir ári síðan. Viðbrögðin hafi hins vegar verið þau að segja upp sviðsstjóra, sem Sólveig og Viðar hafi talið að ætti upptökin að kvörtununum í garð Viðars.
„Ég reyndi að biðla til hennar að standa með þeim konum sem alltaf hefðu staðið með henni, konur sem komu til starfa hjá Eflingu til að styðja við hennar baráttu og ég trúði því ekki að hún myndi bregðast þeim, en allt kom fyrir ekki,“ skrifar Vala og bætir við að ekki hafi verið um einhverja „starfsmenn fyrri stjórnar” að ræða eins og Sólveig Anna og Viðar hafi viljað halda fram. Þau hafi ráðið þessar konur sjálf.
Auk þess heldur hafi ekki verið um „plott fyrrum trúnaðarmanna Eflingar að ræða né „leifar af gamalli vinnustaðamenningu Eflingar“.
„Þetta er allt einfaldlega lygi og hefur það margoft komið í ljós bæði í viðtölum við starfsmenn og í úttekt sálfræðistofu á vinnustaðamenningunni,“ skrifar Vala, sem segir að enginn græði á „þeim farsa sem hófst í lok október í fyrra, ekki starfsmenn og ekki félagsmenn Eflingar.“
„Ef einhver vinnustaður annar hefði tilkynnt um hópuppsagnir til að svo endurráða starfsfólk á lægri kjörum þá værum við hjá Eflingu fyrst til að verja þau og þeirra réttindi, ef einhver annar vinnustaður hefði ráðist á trúnaðarmenn sína og starfsmenn í fjölmiðlum þá værum fyrst til að fordæma það og taka upp hanskann fyrir það starfsfólk,“ skrifar Vala, sem segist „djúpt vonsvikin með stjórn og trúnaðarráð Eflingar og öll þau sem í blindni trúa eftiráskýringum sem standast ekki skoðun.“
„Ég var stolt af því að starfa fyrir Eflingu og trúði því að okkar barátta væri réttlát og árangursrík fyrir félagsmenn. Vanvirðing við okkur starfsfólkið er fordæmalaus,“ skrifar Vala.
Ég er starfsmaður Eflingar í veikindaleyfi eftir að ég lenti í slysi síðasta sumar. Í nótt kl 2 fékk ég uppsagnarbréf...
Posted by Vala Arnadottir on Wednesday, April 13, 2022