Lækkun á hlutfalli frádráttarbærs rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja mun hafa neikvæð áhrif á nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi, að mati fyrirtækja í nýsköpunargeiranum og hagsmunasamtaka á borð við Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Þetta kemur fram í umsögnum við lagabreytingafrumvarp um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki þar sem lagt er til að ýmis bráðabirgðaákvæði verði framlengd.
Gagnrýnin sem birtist í umsögnunum snýr aðallega að lækkun á hlutfalli endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hlutfallið verði á næsta ári 30 prósent. Í ár nemur þetta hlutfall 35 prósentum en hlutfallið var það sama í fyrra. Þetta hlutfall hækkaði nokkuð skarpt, úr 20 prósentum í 35 prósent þegar ýmsum lögum var breytt í maí árið 2020 til þess að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Þegar lagabreytingafrumvarpinu var útbýtt nokkrum vikum áður stóð til að hækka hlutfallið úr 20 prósentum í 25 prósent. Í kjölfar umfjöllunar í nefndum hækkaði hlutfallið upp í 35 prósent. Endurgreiðsluhlutfall í tilviki stórra fyrirtækja var hækkað í 25 prósent en það hafði áður verið 20 prósent. Þá verður þak á framteljanlegan kostnað lækkað úr 1.100 milljónum niður í 1.000 milljónir.
Vilja tryggja fyrirsjáanleika og samkeppnishæfni
Í umsögnum sem borist hafa er meðal annars sagt að breytingar í þessa átt geti haft neikvæð áhrif á vilja fjárfesta, og þá einkum erlendra fjárfesta, til að fjárfesta í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum. Þá kalla fyrirtækin CCP, Marel og Össur eftir því í sameiginlegri umsögn sinni að hærra hlutfallið verði fest í sessi sem og að þak á framteljanlegan kostnað verði fellt niður „til að tryggja fyrirsjáanleika og stöðugt samkeppnishæft umhverfi til nýsköpunar fyrir Hugverkaiðnaðinn á Íslandi.“
Bent er á það í fjölda umsagna, til að mynda frá Viðskiptaráði, Samtökum sprotafyrirtækja, Samtökum Atvinnulífsins, Samtökum leikjaframleiðenda og Hugverkaráði Samtaka iðnaðarins, að því hafi verið heitið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að auka stuðning við nýsköpun, rannsóknir og þróun.
Í kaflanum um iðnað og nýsköpun í stjórnarsáttmála segir orðrétt: „Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar verða framlengdar og farið yfir framkvæmd þeirra og eftirlit. Tímabundin hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna kostnaðar sem fellur til við rannsóknir og þróun verður gerð varanleg.“ Þá er einnig sagt í stjórnarsáttmála að ýtt verði undir „vaxtargetu hagkerfisins með öflugum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun í því skyni að festa nýja stoð efnahagslífsins enn betur í sessi.“
Stjórnvöld vilja að kostnaður sé í samræmi við fjármálaáætlun
Það sem gerir málið ef til svolítið snúið er það að hér er um framlengingu á bráðabirgðaúrræði að ræða. Þannig telja stjórnvöld sig vera að framlengja hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu, þrátt fyrir að hækkunin verði minni heldur en hún var í ár og í fyrra. Þannig segir meðal annars í greinargerð frumvarpsins sem nú liggur fyrir á Alþingi: „Ef bráðabirgðaákvæðin verða ekki framlengd mun heildarframlag til skattfrádráttar lækka niður í 20% frá álögðum tekjuskatti [...].“
Í greinargerðinni segir enn fremur að þetta sé gert til þess að áætlaður kostnaður verði í samræmi við fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027. Áætlunin hefur verið lögð fram á Alþingi en hana á eftir að samþykkja. Samkvæmt greinargerð frumvarpsins er einnig gert ráð fyrir að umsóknir nýsköpunarfyrirtækja um endurgreiðslu muni fjölga og hlutfallið því lækkað til að mæta auknum kostnaði fleiri umsókna.
Endurgreiðslur aukist skarpt á nýliðnum árum.
Samkvæmt kostnaðaráætlun Rannís sem unnin var seint á síðasta ári er gert ráð fyrir að heildarendurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nemi 11,7 milljörðum króna á þessu ári. Til samanburðar var kostnaðurinn í fyrra rúmir 10,4 milljarðar. Endurgreiðslurnar hafa aukist mikið á síðustu árum en árið 2020 námu endurgreiðslurnar tæðum 5,2 milljörðum króna. Ári áður, árið 2019, námu þær 3,57 milljörðum.
Þessi mikla hækkun á ekki lengri tíma skýrist af tvennu. Þakið á endurgreiðslurnar hefur verið hækkað umtalsvert sem og endurgreiðsluhlutfallið. Líkt og áður segir hækkaði endurgreiðsluhlutfallið fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki úr 20 prósentum í 35 prósent árið 2020. Á sama tíma hækkaði þak á endurgreiðslurnar úr 600 milljónum í 1.100 milljónir.