Nýtt frumvarp um leigubifreiðaakstur mun heimila rekstrarform sem býður heim ójafnri samkeppni og hreinlega „gera útaf við leigubifreiðaakstur hérlendis“ að mati leigubílstjóra. „Í frumvarpinu er enn fremur opnað fyrir losarabrag í atvinnugreininni með afnámi vinnuskyldu og takmörkunarsvæða,“ segir í umsögn Bifreiðastjórafélagsins Frama og Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra (B.Í.L.S) um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda.
Drög að frumvarpinu sem um ræðir var birt í samráðsgátt í júlí. Vonir standa til að frumvarpið muni, verði það samþykkt, gera farveitum á borð við Uber og Lyft kleift að bjóða upp á þjónustu sína hér á landi. Til stendur að leggja frumvarpið fram á næsta þingvetri en það hefur þrisvar sinnum áður verið lagt fram.
Þær breytingar á lögum um leigubifreiðaakstur sem finna má í frumvarpinu eru til þess ætlaðar að opna markaðinn fyrir farveitum. Til að mynda er lagt til að ekki þurfi starfsstöð að vera fyrir hendi hér á landi til að geta fengið útgefið rekstrarleyfi eða starfsleyfi leigubifreiðastöðvar. Nú geta einstaklingar einir fengið útgefið rekstrarleyfi en í drögum frumvarpsins er lagt til að einnig verði hægt að veita lögaðilum rekstrarleyfi. Þá er einnig sérstaklega fjallað um gjaldtöku fyrir ferðir, í drögunum er lagt til að gjald megi vera ýmist áætlað eða endanlegt þegar samið er fyrir fram um gjald fyrir ekna ferð.
Frumvarpið sé sniðið eftir tillögum VÍ og SKE
Leigubílstjórar eru mjög ósáttir við efni frumvarpsins, eins og kemur fram í umsögninni. Þar segir að ekki hafi verið tekið tillit til „margháttaðra athugasemda leigubifreiðastjóra“ við fyrri frumvörp, stéttarinnar sem hafi „mesta þekkingu og reynslu í viðkomandi atvinnugrein.“ Ekki hafi verið horft til „þeirra hörmulegu afleiðinga sem afregluvæðing leigubifreiðaaksturs hefur haft á hinum Norðurlöndunum,“ segir þar enn fremur.
Í umsögninni er því haldið fram að ábendingar leigubílstjóra hafi verið hundsaðar. „Aftur á móti er frumvarpið sniðið eftir tillögum Viðskiptaráðs Íslands og Samkeppniseftirlitsins og lagt til að fyrirtæki megi starfrækja leigubifreiðar og að engin bönd verði á fjölda bifreiða. Það vekur upp áleitnar spurningar hvers vegna sjónarmiðum samtaka atvinnurekenda er fylgt til hlítar en röksemdir og ábendingar stéttar leigubifreiðastjóra og Alþýðusambands Íslands hundsaðar.“
Tryggi það að regluverkið samræmist EES-samningum
Í frumvarpsdrögunum segir að starfshópur sem vann að tillögum um heildarendurskoðun á regluverki um leigubifreiðar hafi haft það að markmiði að gera tillögur til ráðuneytisins að nauðsynlegum breytingum til að tryggja að íslenskt regluverk væri í fyllsta samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum og að í því væru engar aðgangshindranir nem þær sem réttlætanlegar væru vegna almannahagsmuna.
Það hafi verið nauðsynlegt vegna þess að: „Ráða mátti af samskiptum við ESA að stofnunin teldi líkur á því að íslensk löggjöf um leigubifreiðar fæli í sér aðgangshindranir sem ekki samræmdust skyldum íslenska ríkisins að EES-rétti,“ segir í þeim kafla greinargerðar frumvarpsdraganna sem fjallar um tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Segja niðurstöður starfshópsins ómarktækar
Að mati Frama og B.Í.L.S. er aftur á móti ekki nauðsynlegt að ráðast í þær breytingar sem samþykkt frumvarp fæli í sér. „Íslenskum stjórnvöldum var í lófa lagið að leita undanþága sem þau gerðu ekki. Þau þurfa að svara fyrir eigin mistök í því efni og fá þau leiðrétt - ekki er hægt að leggja ábyrgðina á þeirri yfirsjón á herðar stéttar leigubifreiðastjóra og notenda þeirrar þjónustu er þeir veita,“ segir í umsögninni.
Frami og B.Í.L.S. segja enn fremur að starfshópur ráðuneytisins hafi ekki tekið mið af svartri atvinnustarfsemi sem skekki markaðinn og því séu niðurstöður starfshópsins ómarktækar. Það sama megi segja um greinargerð frumvarpsins, „þar er talað í ályktunum og líkindum, í stað þess að taka til skoðunar þær afleiðingar sem nú liggja fyrir af nýlegum lagabreytingum á hinum Norðurlöndum sama efnis.“
Samþykkt frumvarpsins yrði því „feigðarflan“ að mati Frama og B.Í.L.S. sem leggjast alfarið gegn því.