Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi eru að undirbúa sig fyrir að senda hermenn til Úkraínu til stuðnings rússneska innrásarliðinu. Í frétt Washington Post segir að innrás Hvít-Rússa gæti jafnvel hafist í dag, mánudag. Þetta hefur dagblaðið eftir bandarískum embættismanni. Áformin ógna fyrirhuguðum viðræðum stjórnvalda í Úkraínu og Rússlandi sem til stendur að eigi sér stað skammt frá landamærunum að Hvíta-Rússlandi. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu féllst á viðræður í gær, þ.e.a.s. að senda sendinefnd á fund rússneskrar sendinefndar.
„Það er núna fullljóst að stjórnin í Minsk er orðin framlenging af stjórninni í Kreml,“ hefur Washington Post eftir embættismanninum.
Fjölmiðill í Kænugarði var fyrstur til að greina frá áformum Hvít-Rússa og í frétt hans kom fram að flugvél sem notuð er til herflutninga eigi að flytja fallhlífasveit til Úkraínu.
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, er náinn bandamaður Vladimírs Pútín Rússlandsforseta.
„Við verðum ánægð ef niðurstaða þessara viðræðna verður friður og lok stríðsins,“ sagði Sergei Kyslytsya, sendiherra Úkraínu gagnvart Sameinuðu þjóðunum, í yfirlýsingu í gærkvöldi. „En ég legg áfram áherslu á að við munum ekki gefast upp. Við munum ekki gefa tommu af landsvæði okkar eftir.“
Rússneski herinn gerði eldflaugaárásir víða í Úkraínu í nótt að sögn forsetaskrifstofu landsins. Árásir voru gerðar í höfuðborginni Kænugarði sem og að minnsta kosti þremur öðrum borgum. New York Times greinir frá þessu en í frétt blaðsins klukkan 6.30 í morgun að íslenskum tíma voru ekki frekari upplýsingar fram komnar um árásirnar.
Úkraínski herinn segist þó hafa náð að hægja á sókn rússneskra hersveita í morgun. Yfirmaður hersins sakar Rússa um að ráðast á borgaraleg skotmörk, s.s. flugvelli og aðra mikilvæga innviði sem sé brot á alþjóðalögum. „Á sama tíma hafa allar tilraunir rússnesku innrásarmannanna til að ná hernaðarlegum markmiðum sínum mistekist,“ sagði í tilkynningu frá úkraínska hernum nú í morgun.
Úkraína er eitt af okkur
„Úkraína er eitt af okkur og við viljum þau inn í sambandið,“ segir Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusbandsins. Stjórnin ákvað í gær að senda vopn til Úkraínu og að banna rússneskum loftförum að koma inn fyrir landamæri ríkja ESB.
Í gær höfðu að minnsta kosti 350 almennir borgarar í Úkraínu fallið að sögn yfirvalda.