Er yfirmaður rannsókna- og eftirlitsdeildar bandaríska innanríkisráðuneytisins óskaði eftir afriti af skilaboðum starfsmanna leyniþjónustunnar dagana í kringum árásina á þinghúsið í Washington, fékk hann þau svör að þeim hefði verið eytt. Skýringin: Uppfærsla og endurnýjun á farsímabúnaði. Frá þessu greindi yfirmaðurinn, Joseph V. Cuffari, í bréfi til formanna öryggisnefnda öldungadeildar og fulltrúadeildar þingsins nú í vikunni.
Rannsókn stendur yfir á aðdraganda árásarinnar á þinghúsið. Sérstök þingnefnd fer fyrir rannsókninni, skipuð bæði fulltrúum repúblikana og demókrata.
Cuffari sagði í bréfi sínu að eyðing skilaboða til og milli starfsmanna leyniþjónustunnar, bæði 5. og 6. janúar, hafi átt sér stað eftir að hann óskaði eftir að fá þessi gögn afhent. Því væri verið að hindra framgang réttvísinnar. Frá þessu greinir í fréttaskýringu Washington Post.
Cuffari og deild hans innan innanríkisráðuneytisins bað um að fá afhent skilaboð starfsmannanna er hann var að vinna að eigin rannsókn á árásinni. Samkvæmt lögum eiga starfsmenn leyniþjónustunnar að afhenda deild Cuffari gögn sem beðið er um. En í þessari tilteknu rannsókn rakst hann á veggi. Honum var ítrekað neitað um að fá gögnin og vildi leyniþjónustan að lögfræðingar færu fyrst yfir þau. „Þetta leiddi til margra vikna tafa á því að við fengjum gögnin og olli runglingi um hvort þau hefðu öll verið afhent,“ skrifar Cuffari í bréfi sínu til þingsins.
Í grein Washington Post segir að textaskilaboðin hefðu getað varpað ljósi á aðdraganda árásarinnar og jafnvel meintan þátt Donalds Trump í henni. Starfsmenn Hvíta hússins hafa þegar upplýst í skýrslutökum hjá rannsóknarnefndinni að Trump hafi vitað hvað var í uppsiglingu er vopnaður skari stuðningsmanna hans kom til höfuðborgarinnar og streymdi svo eftir útifund með honum að þinghúsinu og braust þar inn. Þá hefur einn fyrrverandi starfsmaður Hvíta hússins sagt að Trump hafi ráðist á starfsmann leyniþjónustunnar í forsetabílnum á leið frá útifundinum. Trump vildi að sér yrði ekið að þinghúsinu með skrílnum en bílstjórinn og lífvörður Trumps voru á öðru máli.
Hafnar ásökunum
Talsmaður leyniþjónustunnar segir stofnuna ekki hafa eytt textaskilaboðum frá þessum dögum vísvitandi. Hann segir alla hafa lagt sig fram við að aðstoða við rannsókn málsins, hvort sem það varðar afhendingu gagna eða skýrslutökur.
Hann segir að í janúar í fyrra hafi hafist innleiðing á uppfærslu farsíma leyniþjónustumanna. Það hefði lengi staðið til og ekki tengst árásinni á þinghúsið á nokkurn hátt. Þetta hafi hins vegar leitt til þess að gögn úr „einhverjum farsímum“ hafi glatast.
Cuffari og hans rannsóknarteymi hafi ekki óskað eftir þessum farsímagögnum fyrr en 26. febrúar í fyrra og þá hafi þessi uppfærsla símanna verið komin vel á veg.
Það var Trump sem tilnefndi Cuffari í stöðu yfirrannsakanda hjá innanríkisráðuneytinu, sem svipar nokkuð til starfs ríkisendurskoðanda hér á landi. Hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að fara í sögulega fáar rannsóknir og skoðanir á stofnunum ríkisins síðan hann tók við og fyrir að hindra rannsóknir annarra stofnanna í ýmsum málum. Eitt þeirra er morðið á George Floyd sem lögreglumaður hefur nú verið dæmdur í fangelsi fyrir.
Er Cuffari óskaði loks eftir farsímagögnum leyniþjónustunnar vegna árásarinnar á þinghúsið hafði meira en þriðjungur allra starfsmanna hennar fengið nýja farsíma samkvæmt hinni fyrirfram ákveðnu uppfærslu. Allir starfsmenn stofnunarinnar eiga að taka afrit af gömlum símtækjum sínum, gæta þess að engin gögn glatist, m.a. textaskilaboð. Það gera þeir hins vegar fæstir, segir heimildarmaður Washington Post.
Gögn um Kennedy-morðið
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leyniþjónustan hefur ekki þau gögn á reiðu sem þarf til rannsókna. Það gerðist t.d. við endurupptöku á rannsókn á skotárásinni á John F. Kennedy, áratugum eftir að hún átti sér stað. Spurningar vöknuðu um hvort leyniþjónustan hefði fengið upplýsingar um yfirvofandi hættu, um að hópur manna ætlaði sér að ráða forsetann af dögum. Er sú rannsóknarnefnd bað um gögn fékk hún þau svör að öllum gögnum í tengslum við morðið á Kennedy hefði verið eytt.