Þegar lögreglan fékk gögn sem sýndu nákvæma staðsetningu síma eins farþega flugvélarinnar TF-ABB aðfaranótt föstudags höfðu þau gengið manna á milli á fimmtudeginum, daginn sem vélin hvarf.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Fjórir voru í vélinni, íslenskur flugmaður og þrír erlendir ferðamenn. Þeir fórust allir í slysinu.
Fréttablaðið segir að svo virðist sem mikilvæg grundvallargögn, þ.e. upplýsingar um staðsetningu farsíma eins farþegans, hafi ekki borist stjórnendum leitarinnar, þ.e. lögreglu, fyrr en mörgum klukkustundum eftir að þau höfðu komið fyrir sjónir björgunarsveitarmanna. Þá hafi þau ennfremur gengið manna á milli í flugheiminum á Íslandi. Gögnin bárust m.a. ritstjórn Fréttablaðsins að kvöldi fimmtudags en það var þó ekki fyrr en morguninn eftir að stjórnendur leitarinnar kváðust hafa fengið gögn frá erlendu símafyrirtæki sem beindi allri leitinni að Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni. Þó hafði leit við vatnið verið hafin daginn áður en einnig á mun stærra svæði, m.a. við Kleifarvatn.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn segist í samtali við Fréttablaðið ekki vita hvernig standi á því að gögnin hefðu borist lögreglu svo miklu síðar.
Uppfært kl. 12.00: Lögreglan á Suðurlandi segir þessar fréttir, þ.e. að staðsetning úr farsíma hafi ekki borist stjórnendum aðgerða í tíma, rangar. Í sameiginlegum aðgerðagrunni björgunarsveita og almannavarna þ.m.t. LHG, lögreglu, sjúkraflutninga, Isavia ofl. sé fyrsta vísbending úr farsíma skráð þegar á fimmtudeginum 3. febrúar kl. 17:51 . Kl. 15:40 þennan sama dag hafi legið fyrir í sama grunni eftir gögnum Isavia að flugleiðin hafi verið um Grímsnesið. Leit með sérstakri vél frá danska hernum hafi fyrst verið beint að Grímsnesi og suðurhluta Þingvallavatns. Kl. 17:40 var þyrla Gæslunnar með menn úr séraðgerðasveit í sérstakri leit yfir og í Ölfusvatnsvík.
Formleg staðfesting á símagögnum, sem þegar höfðu verið notuð við skipulagningu leitaraðgerða, fékkst hins vegar ekki fyrr en síðar frá þar til bærum yfirvöldum erlendis, segir í tilkynningunni.
Vélin sést á öryggismyndavélum við vatnið
Mbl.is greindi frá því í gærkvöldi að á upptökum öryggismyndavéla sem eru við Þingvallavatn megi sjá það er vélin fórst í vatninu. Upptökur sýna einnig vélina á flugi á svæðinu.
Samkvæmt heimildum mbl.is virðist sem svo, á einni upptökunni, að flugvélinni sé stýrt niður að vatninu með vinstri beygju. Í kjölfarið líti út fyrir að vélinni hafi verið ætlað að hafa snertingu við vatnið, þ.e. annað hvort svokallaða snertilendingu eða að lenda á vatninu.
Vatnið var að því er fram kemur í frétt mbl.is ísilagt en ísinn hafi þó verið þunnur.
Lík hinna látnu fundust á sunnudag en vegna veðurs hefur ekki enn verið unnt að kafa eftir þeim.