Fyrirtæki sem eru með ferðaþjónustu á Kötlujökli gagnrýna harðlega áform um umfangsmikið vikurnám á Mýrdalssandi. Forsvarsmanneskjur þeirra segjast hafa verulegar áhyggjur ef af námuvinnslunni verði. Hún myndi hafa gríðarlega neikvæð áhrif á það frumkvöðlastarf sem unnið hafi verið í uppbyggingu afþreyingar við þjóðlenduna Kötlujökul sem skapi í dag 40-50 störf, allan ársins hring, auk afleiddra starfa. Þau gera fjölmargar athugasemdir við það mat á umhverfisáhrifum sem verkfræðistofan Efla kemst að í umhverfismatsskýrslu framkvæmdarinnar fyrir þýska fyrirtækið EP Power Minerals (EPPM). Áhrif á ferðaþjónustu og útivist séu stórlega vanmetin og engu sé líkara en að skýrsluhöfundar hafi ekki leitað til nokkurs úr ferðaþjónustunni til að afla upplýsinga. Þó sé atvinnugreinin ein sú mikilvægasta á landsvæðinu.
Ferðaþjónustufyrirtæki hafa á síðustu árum byggt upp ferðamennsku á þjóðlendunni Kötlujökli sem byggir á návígi við ósnortna náttúru og friðsæld þessa stórbrotna og einstaka svæðis, skrifar Guðjón Þorsteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Katlatrack ehf. Í starfi fyrirtækjanna sé virðing og umhyggja fyrir svæðinu höfð að leiðarljósi. Við slíkt fari námuvinnsla „engan veginn“ saman.
Í matsskýrslunni komi fram að fjöldi ferðamanna sem verði fyrir áhrifum sé ekki mikill. „Það er rangt mat,“ segir Guðjón því fjöldinn geti numið nokkrum hundruðum á degi hverjum. „Mat á áhrifum framkvæmdarinnar á þætti eins og upplifun, fágæti landslags, náttúru, náttúruminjar og sögu svæðisins er ábótavant,“ skrifar hann einnig.
Flutningabílar á 7 mínútna fresti allan sólarhringinn
Vikurnáman er áformuð við Hafursey á Mýrdalssandi. Á hverjum degi, myndu flutningabílar aka til og frá námunni, á sjö mínútna fresti að meðaltali, um gamla þjóðveginn á sandinum. Guðjón vekur athygli á því í umsögn sinni að um gamla þjóðleið sé að ræða. Hann furðar sig á því að í skýrslunni segir að vegurinn sé í eigu framkvæmdaaðila en ekki ríkisins, en síðustu ár hafa fyrirtækin sem fara með ferðamenn að jöklinum þjónustað veginn á eigin kostnað.
Lítið er hins vegar gert úr umferð um veginn í matsskýrslunni en auk ferðaþjónustufyrirtækjanna aka hann ferðalangar á eigin vegum. Þá er hann einnig nýttur af hestafólki og göngufólki. „Nýting vegarins varða því hagsmuni allra Íslendinga.“
Mest er umferðin um veginn að sumarlagi eins og gefur að skilja. Þar er landslagið stórkostlegt, útskýrir Guðjón, og segir andstæðurnar í því miklar þegar komið er austur að Hafursey. Það náttúruundur sé ekki ólíkt mælifelli norðan Mýrdalsjökuls, iðjagrænt móbergsfjall sem standi upp úr svörtum sandinum.
Þá gerir hann athugasemdir við að engin umfjöllun sé í matsskýrslu EP Power Minerals um áhrif hinnar miklu þungaumferðar á upplifun ferðamanna sem leið eiga um svæðið. Ekki sé heldur fjallað um áhrif á öryggi þeirra.
Í matsskýrslu segir að efnistökusvæðið yrði ekki sýnilegt frá Kötlujökli. „Það er þó fjarri lagi,“ skrifar Guðjón, því þegar gengið er upp á jökulinn við Moldheiði blasi það við. Það mun jafnframt sjást vel frá þjóðveginum, frá ánni Skálm, ofan af Höfðabrekkuheiðum á leið inn í Þakgil, á leið inn að Kötlujökli, ofan af Hjörleifshöfða og áfram mætti lengi telja, segir Guðjón. „Sýnileiki svæðisins er því vanmetinn í umhverfismatinu en ekki ofmetin eins og leitt er líkum að í skýrslunni“.
Hann segir að efnistakan muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfið og kippa stoðum undan þeirri ferðaþjónustu sem byggð hefur verið upp og stunduð er á svæðinu.
Hafa slæma reynslu af forsvarsmönnum framkvæmdaaðila
Í matsskýrslunni segir orðrétt: Það er mikilvægt markmið EPPM að framkvæmdin sé unnin í sátt og samlyndi við heimamenn og mun EPPM leggja sig fram um að koma fram við landið og íbúa af virðingu.
„Þetta er þvi miður ekki reynsla undirritaðs síðastliðin tvö ár en hótanir hafa borist frá forsvarsmönnum EPPM um gjaldtökur og lokanir að þjóðlendunni Kötlujökli,“ skrifar Guðjón í umsögn sinni. „Lítið bendir til þess að framhaldið verði með öðrum hætti en það sem á undan er gengið.“
Undir þetta tekur kollegi hans, Ársæll Hauksson, eigandi og framkvæmdastjóri Southcoast Adventure. Sátt og samlyndi og virðing við íbúa sé ekki „því miður ekki það viðhorf sem við höfum mætt af þeirra forsvarsmönnum heldur þvert á móti hroka, hótunum og rógburði.“
Ársæll segir EPPM gera „afar lítið“ úr áhrifum framkvæmdarinnar á fyrirtækin sem flytja ferðamenn í vinsælar íshellaferðir í Kötlujökli. „Við höfum þungar áhyggjur af fyrirhuguðum framkvæmdum og áhrifum þeirra á upplifun okkar gesta.“
Hann tekur undir með Guðjóni að gamli þjóðvegurinn sé í eigu íslenska ríkisins þrátt fyrir að öðru sé haldið fram. Það að gera hann einbreiðan með slitlagi og útskotum mun að sögn Ársæls „vissulega hafa truflandi áhrif á okkar starfsemi, sérstaklega í ljósi fjölda stórra ökutækja sem þeir munu hafa á svæðinu“.
Þá finnst honum lítið gert úr hljóðmengun sem af starfseminni á Mýrdalssandi myndi skapast. Í skýrslunni segi að vissulega verði til „nýjar manngerðar hljóðuppsprettur“ þar sem í dag séu engar. Er þar vísað til stórvirkra vinnuvéla í námunni, færibanda og flutningabíla. „Það veldur okkur töluverðum áhyggjum og mun hafa áhrif á okkar starfsemi ef friðsæld og kyrrð hálendisins verður raskað,“ skrifar Ársæll í umsögn sinni. „Einnig verður það að teljast furðulegt“ að í skýrslunni sé því ranglega haldið fram að fáir ef nokkrir verði fyrir áhrifum af hinum nýju, manngerðu hljóðuppsprettum. „Það stenst engan veginn að hans sögn í ljósi þess að á svæðinu er fjöldi ferðamanna í skipulögðum ferðum á vegum ferðaþjónustuaðila auk talsverðs fjölda fólks sem ferðast um svæðið á eigin vegum.
Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures, skrifar á svipuðum nótum og félagar hennar segir það staðreynd að framkvæmdin muni valda meira sandfoki og breyta ásýnd landsins. Þar er hún ekki aðeins að vísa til námuvinnslunnar sjálfrar heldur til hinna miklu þungaflutninga. „Þetta er ekki mynd sem laðar ferðamenn að,“ skrifar hún. Ferðamenn komi til að sjá ósnortna náttúru sem mengandi iðnaður fari ekki saman við – og eigi þar með ekki samleið með íslenskri ferðaþjónustu.
„Allir ferðamenn sem heimsækja suðurströndina verða fyrir áhrifum af þessari framkvæmd og því er um mjög mikla áhættu að ræða fyrir íslenskt samfélag.“ Hún segir athyglisvert að ekki hafi verið leitað til ferðaþjónustuaðila á svæðinu við gerð umhverfismatsins, að minnsta kosti sé ekki vitnað í þá í skýrslunni. Þetta kemur þannig út að framkvæmdaaðilinn einn hafi lagt mat á áhrifin á útivist og ferðamennsku og segi þau óveruleg.
„Áhrif á loftslag heimsins er samkvæmt útreikningum í skýrslunni jákvætt og verður það ekki dregið í efa,“ skrifar Gréta. „Þó er ljóst að áhrif á losun Íslands mun aukast því um mengandi framkvæmd er að ræða sem aftur hefur neikvæð áhrif á þá ímynd sem byggð hefur verið upp af Íslandi sem hreinu landi með ósnortinni náttúru.“