Bandalag íslenskra listamanna (BÍL) telur að bæta þurfi fagsjóðum listgreina upp það tap sem fyrirhugað er í fjárlögum og færa þeim sjóðum í það minnsta það sem þeir höfðu til ráðstöfunar 2021. Sé vísitala reiknuð inn í þessum niðurskurði eru sjóðirnir á pari við það sem þeir höfðu til ráðstöfunar 2014.
Þá telur bandalagið að listamannalaun þurfi að hækka í 560 þúsund krónur til að þau haldi í við launavísitölu og mánuðum sem úthlutað er þurfi að fjölga í 2.700 úr þeim 1.600 sem hefur verið óbreyttur fjöldi frá árinu 2014. Það myndi þýða að 450 milljónum króna þyrfti að bæta í sjóðinn.
BÍL vill að 30 prósent skerðing á framlögum í Kvikmyndasjóð verði dregin til baka enda telur bandalagið hana vera í andstöðu við samþykkta kvikmyndastefnu. Sjóðurinn fékk 1.527 milljónir króna á fjárlögum þessa árs en á að fá 1.094 milljónir króna á næsta ári. Ef skerðingin yrði dregin til baka myndi það þýða viðbótarkostnað upp á 433 milljónir króna á ári.
Þetta kemur fram í umsögn BÍL um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp.
Vilja skýringar á „andlitslausu“ ráðstöfunarfé
Bandalagið vill líka að gerð verði grein fyrir því fjármagni sem í dag er stærsti útgjaldaliður samninga og styrkja við lista menningu. Það kallar þennan útgjaldalið, sem er 1,2 milljarðar króna í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og hækkar um tíu prósent milli ára, „andlitslaust“ ráðstöfunarfé mennta- og viðskiptaráðuneytisins.
Endurgreiðslur auknar en framlög til Kvikmyndasjóð skorin niður
Stjórnvöld ákváðu fyrr á þessu ári að hækka endurgreiðsluhlutfall fyrir stærri kvikmyndaverkefni úr 25 í 35 prósent. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eiga slíkar endurgreiðslur, sem fara að uppistöðu til erlendra framleiðenda sem ákveða að vinna verkefni sín á Íslandi, að hækka úr 1.453 milljónum króna í ár í 1.724 milljónir króna á næsta ári.
Á árunum 2021 og 2022 voru 412 milljónir króna, á hvoru ári um sig, settar inn í Kvikmyndasjóð aukalega við það sem áður hafði verið ákveðið. Auk þess var 98 milljón króna viðbótarframlag veitt til Kvikmyndamiðstöðvar vegna sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar til að sporna við niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs verða þessar viðbótargreiðslur ekki lengur í boði þar sem ríkisstjórnin er að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu. Þess vegna verður framlag ríkissjóðs í Kvikmyndasjóð dregið saman um næstum 30 prósent milli ára og framlög til Kvikmyndamiðstöðvar um rúman fjórðung.