„Í farvatninu er aðför að kjörum lífeyrisþega lífeyrissjóðanna. Atlagan að kjörum lífeyrisþega er hluti fyrirhugaðra breytinga á ýmsum lögum vegna lögfestingar hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóða. Skerðingin á kjörum lífeyrisþeganna er með öllu óskyld og óviðkomandi lögfestingu lágmarksiðgjaldsins.“ Svona hefst grein í Morgunblaðinu í dag sem er skrifuð af tveimur reynslumestu stjórnendur íslenska lífeyriskerfisins frá því að það var sett á fót, Hrafni Magnússyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða til 36 ára, og Þorgeiri Eyjólfssyni, sem var framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í aldarfjórðung.
Drög að ofangreindu frumvarpi voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 18. mars síðastliðinn. Þau eru lögð fram af fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem stýrt er af Bjarna Benediktssyni. Efni frumvarpsins er sagt vera liður í stuðningi ríkisstjórnarinnar við gerð lífskjarasamningsins frá árinu 2019. Í þeim samningi skuldbundu stjórnvöld sig meðal annars að hækka lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða og að ráðstafa mætti séreignarsparnað til húsnæðiskaupa eða til lækkunar húsnæðislána. Frumvarpið var áður lagt fram í apríl í fyrra, en þá lagði efnahags- og viðskiptanefnd þingsins til að það yrði endurskoðað með tilliti til þeirra umsagna sem bárust um það. Eftir að hafa unnið úr umsögnunum hefur ráðherrann nú lagt fram frumvarpið aftur með nokkrum breytingum.
Og svo er, í fimmta lagi, lagt til að verðlagsuppfærslur lífeyrisgreiðslna eigi sér stað einu sinni á ári í stað mánaðarlega eins og nú er. Það er sá hluti sem Hrafn og Þorgeir gagnrýna harðlega.
„Ekki eins og lífeyrisþegar landsins hafi verið ofaldir af stjórnvöldum“
Í greininni segja þeir að með þessari breytingu eigi að skerða lífskjör lífeyrisþeganna með því að í stað þess að greiðslur lífeyris frá lífeyrissjóðunum taki mánaðarlegum breytingum vísitölu neysluverðs sé ætlunin að verðbæta lífeyrinn einu sinni á ári. „Þannig hækki lífeyrir í útgreiðslu árlega í janúar ár hvert um hækkun neysluverðvísitölu næstliðins árs. Kaupmáttur lífeyris lífeyrisþeganna mun því lækka sem nemur verðbótum sem annars bætast við lífeyrisgreiðslu hvers mánaðar innan ársins.“
Hrafn og Þorgeir segja að neikvæðar afleiðingar hinna fyrirhuguðu breytinga megi sjá með því að horfa á hver áhrifin yrðu á yfirstandandi ári ef lagabreytingin hefði tekið gildi í upphafi árs 2022. Miðað við þá 6,7 prósent verðbólgu sem mælist nú myndi kaupmáttarskerðing lífeyrisþega verða um það bil þrjú prósent ef breytingin hefði þegar tekið gildi.
Í drögum að frumvarpinu er breytingin á verðlagsuppfærslu lífeyrisgreiðslna rökstudd með eftirfarandi hætti: „Er þetta gert til þess að draga úr misræmi milli tekjuáætlunar lífeyrisþega og raunverulegra tekna hans sem leiða gjarnan til þess að lífeyrisþegi þarf að endurgreiða þegar fengnar greiðslur frá almannatryggingum. Tillagan er til hagsbóta fyrir lífeyrisþega og Tryggingastofnun.“
Hrafn og Þorgeir segja að í stað þess að ráðast í það sem þeir kalla „verulega kaupmáttarskerðingu lífeyris“ til að draga úr fyrrgreindu misræmi gæti Tryggingastofnun auðveldlega uppfært tekjuáætlun lífeyrisþeganna þannig að áætlað sé fyrir verðlagsbreytingum lífeyrisgreiðslna mánaðanna sem eftir lifa á hverju ári.
Þeir vitna svo í umsögn Seðlabanka Íslands um frumvarpsdrögin, þar sem fram kemur að bankinn telji að með breytingunni verði lífeyrisþegar af verðbótum sem annars bættust við innan hvers almanaksárs. „Jafnframt að hann telji eðlilegt að framkvæmdin sé með sama hætti og gildir um verðtryggðar fjárfestingar, sem eru verðbættar minnst mánaðarlega. Horft til nokkurra ára safnast kaupmáttarskerðingin upp.“
Hrafn og Þorgeir segja í lok greinarinnar að ólíklegt sé að lífeyrisþegar telji fyrirhugaða breytingu á verðtryggingu lífeyris sér til hagsbóta þegar hún uppsöfnuð yfir fimm ára tímabil samsvarar samanlagt allt frá einni til tveggja mánaða lífeyrisgreiðslna yfir tímabilið sem þá vantar til að standa straum af brýnustu nauðsynjum. „Ekki eins og lífeyrisþegar landsins hafi verið ofaldir af stjórnvöldum. En það er efni í aðra og mun sorglegri grein.“