Hægt væri að draga úr atvinnuleysi og spara í ríkisfjármálum til lengri tíma ef ríkisstjórnin myndi ráðast í stórtækar aðgerðir á vinnumarkaði, að mati Samfylkingarinnar. Þessar aðgerðir fælu meðal annars í sér hækkun atvinnuleysisbóta, markvissari ráðningarstyrki og sérstaka styrki til listafólks til að halda viðburði um allt land.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Samfylkingarinnar í morgun þar sem tillögur um ný úrræði gegn atvinnuleysi voru kynntar. Glærurnar af fundinum má nálgast með því að smella hér.
Gætu sparað ríkissjóði allt að 50 milljarða
Samkvæmt Oddnýju Harðardóttur, þingflokksformanni flokksins, kostar hver prósenta af atvinnuleysi ríkissjóð 6 milljarða króna á ári. Aðgerðirnar sem flokkurinn kynnti myndu hins vegar kosta ríkissjóð 18 milljarða og myndu þær því ekki hafa neikvæð áhrif á afkomu hins opinbera ef atvinnuleysi yrði prósentustigi lægra næstu þrjú árin vegna þess.
Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík, sagði hins vegar að úrræðin gætu borgað sig upp á 1-2 árum, þar sem þau vinna hraðar á atvinnuleysinu. Á tímabilinu 2021-2025 gæti ríkissjóður sparað allt að 50 milljarða vegna verkefnisins ef atvinnuleysi minnkar strax um 2 prósent vegna aðgerðanna.
„Við viljum sjá nýjan tón sem tekur mið af raunverulegri dýnamík í ríkisfjármálum,“ bætti Kristrún við á fundinum og ítrekaði að mikilvægt væri að gera sér grein fyrir að kostnaður hins opinbera í dag gæti dregið úr kostnaði þess í framtíðinni svo um munar.
Hækkun bóta og stuðningur við listamenn
Samfylkingin lagði til hækkun atvinnuleysisbóta upp í 95 prósent af lágmarkstekjutryggingu og lengingu tímabils þeirra í 12 mánuði. Auk þess lagði hún til að ráðningarstyrkir yrðu lengdir, og að úrræðið yrði útvíkkað svo það tæki einnig til þeirra sem hefðu verið vinnulitlir síðan 2019.
Þar að auki vill flokkurinn veita þeim sem hafa verið atvinnulausir tvöfaldan persónuafslátt, sem væri samkvæmt þeim ígildi afturvirks tekjufallsstyrks fyrir heimilin. Flokkurinn vill einnig framlengja tímabundna hækkun endurgreiðslna á rannsóknar- og þróunarkostnaði og setja 800 milljónir í Tækniþróunarsjóð.
Þess utan lagði flokkurinn til að ungt fólk og listamenn yrðu styrktir sérstaklega einnig, en Kristrún sagði það vera þekkt fyrirbæri í kreppum að störfin sem færu fyrst væru störfin sem ungt fólk vinnur. Styrkirnir fælu í sér lengri tímabil fyrir sumarstörf námsmanna og að þeim yrði tryggður réttur til atvinnuleysisbóta í námshléum. Einnig yrði 250 milljónum króna varið í að styrkja listafólk til að halda viðburði um allt land.