Frá innrás rússneska hersins í Úkraínu 24. febrúar og fram til 8. september gaf sendiráð Íslands í Moskvu út 125 skammtímaáritanir inn á Schengen-svæðið til rússneskra ríkisborgara. Þetta kemur fram í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Í svari ráðuneytisins segir að hafa beri í huga að þessi tala jafngildi ekki þeim fjölda rússneskra ferðamanna sem kann að hafa komið til Íslands á þessu tímabili, m.a. vegna þess að einhverjir ferðamenn sem hafa haft gilda áritun til annars Schengen-ríkis gætu hafa haft viðdvöl hér á landi.
Fjöldi útgefinna áritana frá þessu sama tímabili árið 2019, síðasta árið áður en COVID-faraldurinn skall á, en þá gaf sendiráð Íslands í Moskvu út alls 2.167 skammtímaáritanir inn á Schengen-svæðið.
Sum Schengen-ríki ætla að loka á rússneska ferðamenn
Á undanförnum vikum hefur verið lagt til á vettvangi Evrópusambandsins að gera það bæði erfiðara og dýrara fyrir rússneska ferðamenn að ferðast til Evrópu, en pólitískur vilji var til þess á utanríkisráðherrafundi sambandsins sem fram fór 31. ágúst síðastliðinn.
Í kjölfarið lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram tillögu þann 6. september um að gildandi samningi við Rússland um útgáfu Schengen-áritana yrði rift. Samkvæmt umfjöllun vefritsins SchengenVisaInfo fela tillögurnar í sér að rússneskir ferðamenn munu þurfa að greiða meira fyrir áritanir, 80 evrur í stað 35 evra áður, hámarkstíminn sem umsóknir eiga að taka verði lengdur úr 10-15 dögum í 45 daga, erfiðara verði að fá áritanir sem gilda til fleiri en einnar ferðar inn á Schengen-svæðið og umsækjendur þurfi að framvísa fleiri gögnum.
Nokkur ríki hafa ákveðið að ganga lengra, og frá og með 19. september ætla Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litáen, auk Póllands, að hætta tímabundið að afgreiða vegabréfsáritanir inn á Schengen-svæðið til rússneskra ferðamanna og meina Rússum aðgang að ríkjunum.
Finnskar sendiskrifstofur afgreiða 10 prósent af því sem þær áður gerðu
Finnland hefur líka þegar gripið til þess ráðs að fækka útgefnum vegabréfsáritunum til rússneskra borgara um 90 prósent, og hafa sendiskrifstofur Finnlands einungis afgreitt um 100 umsóknir um Schengen-áritanir frá 1. september. Áður en þessar hömlur voru settar á afgreiðslu umsókna þaðan voru um 1.000 manns að fá áritanir þar á degi hverjum. Rússar geta einungis sótt um áritanir hjá finnsku sendiskrifstofunum á mánudögum.
Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, útskýrði ákvörðun stjórnvalda með þeim hætti að Finnland vildi ekki verða viðkomustaður rússneskra ferðamanna sem vildu komast til annarra ríkja.
„Þeir koma til Helsinki-flugvallar og fara beint í frí annars staðar. Það er ekki hlutverk sem Finnland vill gegna,“ sagði Haavisto við finnska ríkismiðilinn Yle.