Friðjón R. Friðjónsson, frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að ein leið til að auka sátt um sjávarútvegsmál á Íslandi væri að skrá fleiri sjávarútvegsfélög á hlutabréfamarkað og um leið þrengja að hámarksaflahlutdeild þeirra félaga sem ekki væru skráð á markað.
Samkvæmt hugmynd Friðjóns væri gengið út frá því að sjávarútvegsfyrirtæki sem „lúta aðhaldi og gagnsæiskröfu aðallista Kauphallarinnar“ mættu halda 12 prósenta hámarkinu eða jafnvel hækka það. Um leið segir Friðjón að setja þyrfti „skýrar reglur um hvað teljist tengdir aðilar“ og jafnvel setja kvaðir um að hluti bréfa félaganna þurfi að vera í dreifðri eign samkvæmt fyrirframskilgreindu lágmarki.
„Þannig yrði eina leiðin fyrir sjávarútvegsfyrirtæki til að ná verulegri stærðarhagkvæmni að vera í dreifðari eignaraðild en nú er og lytu þau þá síður duttlungum eða ákvörðunum einstaka eigenda,“ skrifar Friðjón.
Hann segir að sjávarútvegur á Íslandi eigi að vera stolt lands og þjóðar.
„Til að svo megi verða þurfa að verða breytingar. Atburðir síðustu daga og missera sýna það bersýnilega. Við þurfum að vera opin fyrir breytingum, opin fyrir að bæta undirstöðuatvinnuveginn og opin fyrir að gera Ísland betra,“ skrifar Friðjón, sem er miðstjórnarmaður í Sjálfstæðisflokknum og framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins KOM, í grein sinni.
Viðreisn og fleiri lögðu fram frumvarp um skráningarskyldu
Hugmyndir um dreift eignarhald sjávarútvegsfélaga með það að augnamiði að auka sátt um atvinnugreinina og nýtingu auðlindarinnar í samfélaginu eru ekki nýjar af nálinni.
Á þessu kjörtímabili hefur þingflokkur Viðreisnar auk þingmanna Pírata og Samfylkingar lagt fram frumvarp sem fól í sér að sjávarútvegsfyrirtæki sem hefðu meira en 1 prósent af heildarafla á sínum höndum þyrftu að skrást á hlutabréfamarkað. Ef fyrirtæki réðu yfir 8-12 prósentum heildaraflahlutdeildar gætu einstakir hluthafar og aðilar honum tengdir ekki farið með meira en 10 prósent hlutafjár eða atkvæðisréttar.
Segja má að hugmyndin sem Friðjón útlistar í Morgunblaðinu í dag gangi nokkuð skemur en frumvarp Viðreisnar og annarra, en hugsunin er í grunninn svipuð — að tryggja aukið gagnsæi í greininni með skráningu á markað.
Skömmu eftir að Namibíumálið svokallað kom upp á yfirborðið í nóvember 2019 sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, að fyrirtæki í sjávarútvegi gætu haft mikið gagn af skráningu á markað.
„Þessi togsteita milli myndi ég segja, og sem hefur verið við líði í nokkuð lengi milli sjávarútvegarins og almennings, ég held að skráning á markað og dreifð eignaraðild almennings að þessum fyrirtækjum verði svona grundvöllur sáttar um greinina,“ sagði Magnús í samtali við Vísi í nóvember 2019.
Einungis tvö sjávarútvegsfyrirtæki eru skráð á hlutabréfamarkað á Íslandi í dag, en það eru Brim og Síldarvinnslan í Neskaupstað.