Meirihluti þeirra sem juku úttektir sínar úr séreignarsparnaði sínum í fyrra voru yfir fertugu, en einungis 8 prósent fjármuna sem teknir voru úr séreignarsparnaði virðist hafa runnið til fólks undir þrítugu.
Þetta kemur fram þegar tilraunatölfræði Hagstofu Íslands um lífeyrisgreiðslur landsmanna eftir aldurshópum er borin saman við upplýsingar stjórnvalda um nýtingu séreignarúrræðisins.
Samkvæmt Hagstofu jukust lífeyrisgreiðslur til fólks á aldrinum 16-64 ára um tæpa 23 milljarða króna í fyrra miðað við árið áður, en það er jafnhá upphæð og var greidd út í séreignarúrræði stjórnvalda á sama tíma.
Ef gert er ráð fyrir að öll aukningin í lífeyrisgreiðslum í fyrra sé vegna úrræðisins sést að nokkur munur hefur verið á nýtingu þess eftir aldursflokkum. Þannig runnu einungis 313 milljónir króna til fólks á aldrinum 20-25 ára, en rúmir fjórir milljarðar til fólks á aldrinum 40-44 ára.
Aldursdreifinguna má sjá á mynd hér að ofan, en samkvæmt henni var nýting úrræðisins ekki jafnvinsæl hjá eldra fólki á sextugs- og sjötugsaldri eins og hún var hjá þeim sem voru á fimmtugsaldri. Einungis 8 prósent heildarupphæðarinnar rann hins vegar til fólks á þrítugsaldri.
Í mars í fyrra ákváðu stjórnvöld að veita einstaklingum tímabundna heimild til að nýta séreignarsparnaðinn sinn til að mæta áhrifum faraldursins. Upphaflega átti heimildin aðeins að gilda í þrjá mánuði, en ákveðið var að lengja frestinn og nú er búist við að greitt verði úr séreignarsparnaði vegna hennar út marsmánuð 2022. Reiknað var með því að umfang úrræðisins myndi nema 10 milljörðum króna á þessu 24 mánaða millibili, en samkvæmt upplýsingum frá Stjórnarráðinu hafa nú þegar um 27,3 milljarðar króna verið greiddar út.