„Það er eitt að viðra vangaveltur, athugasemdir, hafa áhyggjur. Það er eðli máls okkar í stjórnmálum. Það er hins vegar líka þannig að við eigum að hlusta á sérfræðingana.“
Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Hann sagðist jafnframt svekktur út í sjálfan sig, aðra þingmenn og sérfræðingana í Bankasýslunni.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurði hann meðal annars af hverju hann hefði ekkert gert með viðvaranir Lilju Alfreðsdóttur varaformanns flokksins og viðskiptaráðherra.
Allir ráðherrar höfðu sínar áhyggjur
Þorgerður Katrín hóf mál sitt á því að segja að bankasölumálið tæki sífellt á sig skrýtnari myndir. „Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, upplýsti á þingi í gær að hún hefði ekki verið eini ráðherrann sem hafði áhyggjur af söluferlinu. Aðrir ráðherrar í ráðherranefnd um efnahagsmál, það er þau Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson, hafi líka verið með sínar áhyggjur. Það voru fyrir okkur hér í þinginu nýjar upplýsingar. Sem sagt: Allir ráðherrarnir höfðu sínar efasemdir og sínar áhyggjur en gerðu ekkert til þess að upplýsa um þær áhyggjur sínar. Þeir upplýstu ekki þingið, ekki þingflokka sína, ekki fjölmiðla eða almenning.
Við heyrðum síðan í morgun að fjármálaráðherra sló aðeins á efasemdirnar innan ráðherrahópsins en undirliggjandi er að efasemdir og áhyggjur voru til staðar. Við heyrðum líka í gær að samstarf og samvinna formanns og varaformanns Framsóknar sé framúrskarandi. Það er náið og gott eins og mátti skilja á ræðu varaformanns Framsóknarflokksins. Það er auðvitað afskaplega ánægjulegt. Formaður Framsóknarflokksins hefur því eðlilega vitað af áhyggjum viðskiptaráðherrans í ráðherrahópi um efnahagsmál,“ sagði hún.
Þorgerður Katrín spurði Sigurð Inga af hverju formaður Framsóknarflokksins hefði ekkert gert með viðvaranir varaformannsins. Af hverju hefði innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins frekar tekið afstöðu með fjármálaráðherra og tillögum hans en sínum eigin ráðherra, sínum eigin varaformanni og auðvitað nána og góða samstarfsmanni?
Sérfræðingarnir brugðust
Sigurður Ingi kom í pontu og sagði að það væri eitt að viðra vangaveltur og athugasemdir – og hafa áhyggjur. Það væri eðli málsins í stjórnmálum. Það væri hins vegar líka þannig að þau ættu að hlusta á sérfræðingana.
„Sérfræðingarnir komu með ákveðna tillögu. Við sem stjórnmálamenn hljótum að spyrja hvort þær séu réttar og viðrum þá athugasemdir okkar, áhyggjur, eftir atvikum spurningar, setjum skilyrði. Staðan er hins vegar að þrátt fyrir talsvert mikla umræðu þá var því miður enginn, hvorki í ráðherranefnd né ríkisstjórn né hér í þinginu, né heldur þegar samráð var haft við allan almenning í landinu, alla sérfræðingana, því miður enginn, og ég er svekktur út í sjálfan mig, ekki heldur í þessum sal, ekki heldur þeir þingmenn sem hæst hafa galað á síðustu dögum ...“ sagði Sigurður Ingi en þurfti að gera hlé á máli sínu þegar einhver þingmaður greip fram í.
„Talað, afsakið,“ sagði hann. „Enginn benti á að það hefði verið skynsamlegt að setja lágmark um það hversu hátt eða lágt þessir svokölluðu fagfjárfestar ættu að geta keypt fyrir. Það setti enginn hugmyndir um slík skilyrði, að það þyrftu að vera einhvers konar siðferðileg viðmið. Lærdómur okkar sem erum í pólitík er einfaldlega sá að fjármálamarkaðnum virðist því miður ekki vera treystandi. Við verðum að setja skilyrði þannig að það sé ekkert svigrúm til túlkana þegar kemur að því að selja,“ sagði hann og lauk máli sínu á að segja að honum fyndist sérfræðingarnir sem þau treystu hafa brugðist.
Ráðherrar firra sig ábyrgð
Þorgerður Katrín spurði í annað sinn og sagðist vera að reyna að rýna í svör ráðherra. „Þetta er sem sagt Alþingi að kenna. Þetta er sem sagt sérfræðingunum að kenna. Það er þjóðinni að kenna að ríkisstjórnin klúðraði bankasölu, þessu risahagsmunamáli fyrir alla þjóðina. Það var ekki ríkisstjórnin. Það var þjóðin. Það voruð þið hérna, þingheimur. Þið spurðuð ekki réttu spurninganna. Það voru sérfræðingarnir og það hefði átt að setja skilyrði fyrir siðferðisleg viðmið.
Það vill svo til að í stjórnsýslureglum, sem ráðherrar í ríkisstjórn eiga að fara eftir, eru einmitt siðferðisleg viðmið. Það heitir hæfisreglur. Það heitir það að fylgja eftir rannsóknarskyldu sinni um það hvernig söluferlið eigi að fara fram. Það er aumkunarvert að vera hér í þingsal og heyra hvern ráðherrann á fætur öðrum koma hingað upp og firra sig ábyrgð af öllu heila klabbinu. Þið eruð í ríkisstjórn. Þið eruð ekki sérfræðingar úti í bæ,“ sagði hún.
Framkvæmdin mistókst
Sigurður Ingi hóf seinna svar sitt á því að segja að hann hefði misst út úr sér orðið „galað“ þegar hann meinti „talað“.
„Svo kem ég núna og þarf að fara að svara fyrir það sem ég sagði áðan. Ég sagði: „Ég er svekktur á því að hafa ekki brugðist við,“ en ég benti á að það hefði enginn annar gert það heldur fyrr en eftir þetta,“ sagði hann og bætti því við að hann væri eftir á tilbúinn að skrifa nákvæmlega hvaða skilyrði hefðu þurft að vera þarna til þess að þessir hlutir gengju eðlilega fyrir sig.
„Ég er sannfærður um að þjóðin, sem er ósátt við þessa framkvæmd, og það er ég líka, ósáttur, væri glöð yfir því ef við hefðum sett þau skilyrði þar sem þetta væri skynsamleg, flott aðgerð, meira virði fyrir þessa eign ríkisins. Við vorum að selja 22 prósent, það voru þarna einhver 1, 2, 3 prósent sem fengu þennan hlut og ég er ósáttur við það þó að hann sé svona lítill af því að mér finnst framkvæmdin hafa mistekist á þessu verki.“